Embættisinnsigli eru jafnan með mynd á miðjum fleti sem vísar til eðlis embættisins, oft er um gamalkunn tákn að ræða. Hægt er að smella á myndirnar og fá stærri útgáfu til að sjá betur smáatriði í hverju innsigli.
Innsigli Íslands 1593
Eitt þekkstasta innsigli íslenskt frá síðari öldum er fyrsta sérstaka innsigli landsins frá árinu 1593. Innsigli þetta eða innsiglismyndin var jafnframt skjaldarmerki landsins. Megineinkenni þess er hinn krýndi afhöfðaði þorskur. Ártalið 1593 er letrað að hálfu beggja vegna hans. Þetta var hið opinbera innsigli landsins til 1904. Utan um þorskinn sem er áletrunin: SIGILLVM: INSVLÆ: ISLAND eða innsigli eyjunnar Ísland.
Innsigli Reykjavíkur
Reykjavík var með fyrstu kaupstöðum til að eignast eigið merki. Sigurður Thorgrímssen bæjarfógeti lét Frisak, danskan sjómælingamann sem var hér lengi, teikna merki fyrir kaupstaðinn og var það formlega tekið í notkun 28. janúar 1815. Það var opinbert merki bæjarins til 1957 þegar núverandi merki var tekið upp.
Innsigli Landsskjalasafns
Þjóðskjalasafn hét í upphafi Landsskjalasafn Íslands og var stofnað 1882. Fyrsti landsskjalavörðurinn (1900), Jón Þorkelsson, Forni, lét búa til fyrsta innsigli safnsins. Það sést hér eins og það var þrykkt í lakk á skjal árið 1907.
Innsigli landfógeta
Innsigli landfógetaembættisins eins og það birtist í reikningum jarðabókarsjóðs frá árinu 1852.
Innsigli sýsluembætta
Þegar fram liðu stundir virðast sýsluembættin fá föst innsigli sem ekki tilheyrðu einstaklingi þeim sem gegndi embættinu. Hér sést innsigli í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu eins og það var 1907 með undirskrift Sigurðar Þórðarsonar sýslumanns.
Hér má einnig sjá innsigli Gullbringu- og Kjósarsýslu eins og Þórður Guðmundssen sýslmaður notaði það í maí 1849. Á innsiglinu stendur reyndar KIOSE OG GULDBRINGE SYSSEL öfugt við þá málvenju sem síðar skapaðist.