Byggðarmerki sveitarfélaga
ATHUGIÐ! Þessi hluti vefs skjaladagsins er í vinnslu; enn vantar verulega á upplýsingar um byggðarmerki allra sveitarfélaga í landinu.
Ekki er með vissu vitað um uppruna hreppa á Íslandi, en hitt þykir líklegt að þeir hafi komið til sögunnar nokkuð snemma. Með tíundarlöggjöfinni 1097 var hreppum fengið það vekefni að innheimta og skipta tíund. Í Grágás, frá síðari hluta 13. aldar, eru ákvæði um hreppa, en fyrsta trausta heimildin um þessar grunneiningar íslenska stjórnkerfisins er manntalið 1703.
Í meginatriðum hefur hreppaskipan haldist lítt breytt frá 1703 og fram á síðari hluta 20. aldar, þó að sjálfsögðu hafi einhverjar breytingar orðið á fjölda hreppa og skipan þeirra. Fjöldi sveitarfélaga náði hámarki um miðja 20. öld og hefur þeim farið fækkandi síðan, einkum síðustu tvo áratugina.
Í ríkisskjalasafninu í Haag er varðveitt skjaldarmerkjabók frá 13. öld. Í henni er að finna merki sem kallað er merki konungs Íslands og er þar mynd af ókrýndu ljóni með öxi. Leidd hafa verið rök að því að merki þetta hafi verið merki Íslands eða tilheyrt þeim sem fór með æðsta vald í umboði Noregskonungs.
Til er innsigli með hausuðum þorski með kórónu frá 1593 sem er varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands og einnig er þekkt merki með flöttum þorski með kórónu frá svipuðum tíma.
Í tilskipun um kaupstaði frá árinu 1786 er kveðið á um rétt kaupstaðarbúa til að „beiðast einhvers sérlegs vopnamerkis og staðarinnsiglis, undireins og þeim veitast eigin staðaryfirvöld.“ Reykjavík fékk kaupstaðarréttindi þetta ár og hinn 28. janúar 1815 var fyrsta kaupstaðarinnsigli Reykjavíkur formlega tekið í notkun. Það var teiknað af Hans von Frisach, dönskum mælingarmanni að undirlagi Sigurðar Thorgrimsen land- og bæjarfógeta. „Innsiglið sýnir mann í hversdagsbúningi tómthúsmanna þeirra tíðar. Heldur hann á krókstaf í annari hendi en Merkúrmerkið, tákn verslunar í hinni. Þá sést á skipsstafn annars vegar við manninn en þrjá flatta þorska hins vegar. Við fætur hans er hálslangur fugl með umgjörð úr kaðli og í baksýn er eyja eða nes. Í ramma utan um myndina stendur: SIGILLUM CIVITATIS REYKJAVIKAE. Þetta innsigli var merki Reykjavíkur allt fram til ársins 1957.“ (3)
Hinn 3. október 1903 var gefinn út úrskurður um að skjaldarmerki Íslands skyldi vera hvítur íslenskur fálki á bláum grunni. Árið 1919 var tekið upp skjaldarmerki, teiknað af Ríkarði Jónssyni myndhöggvara, sem sýndi landvættirnar fjórar halda á krýndum skildi með mörkuðum fána Íslands og gilti þetta merki fram til 1944 en þá tók gildi nýtt skjaldarmerki, teiknað af Tryggva Magnússyni listmálara, sem byggði á skjaldarmerkinu frá 1919 með nokkrum breytingum.
Fjölmörg merki bæja og sýslna voru teiknuð í tengslum við Alþingishátíðina 1930 og eru sum þeirra enn notuð. „Á síðustu 20 árum hefur þeim sveitarfélögum fjölgað mjög sem tekið hafa upp byggðarmerki, og í sveitarstjórnarlögum frá 1986 er ákvæði um slík merki. Í kjölfar laganna skipaði félagsmálaráðherra, árið 1991, nefnd til að semja reglur um gerð byggðarmerkja. Reglurnar birtust í Stjtíð. B, nr. 74/1992. Frá 1992 til 1998 starfaði sérstök byggðarmerkjanefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins. Nefndinni var ætlað að vera umsagnaraðili um byggðarmerki áður en til staðfestingar ráðuneytisins kæmi og vera sveitarstjórnum til leiðbeiningar um gerð merkja. Með gildistöku nýrra sveitarstjórnarlaga 1998 var byggðarmerkjanefnd lögð niður og verkefni hennar færð til iðnaðarráðuneytisins og Einkaleyfastofu.“ (1)
Heimildir: