Haus

Leiðari

Allir leitast við að eiga sér samastað í tilverunni, samsama sig umhverfi sínu á einn eða annan hátt. Menn tengja sig við fjölskyldu sína, vini, skólafélaga, íþróttafélög; götu, þorp, sveit; borg eða hérað og loks við tiltekið land. Öll erum við svo borgarar á jörðinni. Umhverfið mótar einstaklingana sem í það fæðast og í því búa. “Allt er auðvelt heima,” og “heimskt er heimaalið barn” eru gömul sannindi. Við skilgreinum okkur í samfélaginu með því að bera okkur saman við það sem við þekkjum heiman að frá (í götunni, sveitinni, skólanum o.s.frv) og það sem við þekkjum ekki eða minna. Þannig m.a. öðlumst við sjálfvitund og styrkjum hana síðan á margvíslegan hátt. Einn er Austfirðingur, annar sjómaður, þriðji KR-ingur, fjórði Veslingur (þ.e. úr Verzlunarskólanum), fimmti náttúruunnandi. Möguleikarnir eru nánast óteljandi.

Á norræna skjaladeginum munu skjalasöfnin í landinu að venju setja upp sýningar eða minnast dagsins á annan hátt. Að þessu sinni er þemað “identitet” og verður fjallað um nokkra þá þætti sem hér eru taldir að ofan og marga fleiri. En alltaf með það í huga að tengja einstaklinginn við umhverfi sitt í víðasta skilningi. Einstök söfn munu gera það hvert með sínu móti, en væntanlega flest taka mið af sínu héraði eða nærumhverfi eftir því sem safnkostur gefur tilefni til og menn vilja.

Íslendingar urðu til sem þjóð við landnámið, þrátt fyrir sterk tengsl við Noreg fyrstu áratugina. Fyrsta varðveitta dæmið um orðið “íslenskur” er í vísu eftir Sighvat Þórðarson skáld frá Apavatni, sem ætti að vera ort um 1020 að því er heimildir telja og var það austur í Svíþjóð.

“Oss hafa augun þessi
íslensk, konan, vísað,
brattan stíg að baugi
björtum, langt hin svörtu.”

Í fornsögunum eru mörg dæmi um samheldni Íslendinga í útlöndum og tilfinningu þeirra fyrir að vera einnar þjóðar. Þeir þóttu stundum “tómlátir” um innanríkismál í Noregi, hafa sjálfsagt ekki talið þau koma sér mikið við. En þegar þeir burgu Gísl Illugasyni undan gálganum varð Magnúsi bergætt Noregskonungi að orði: “Eigi voruð þér nú tómlátir, Íslendingar.” Frá þessum mönnum er óslitinn þráður til “strákanna okkar” þegar þeir hlusta fjálgir á þjóðsönginn spilaðan áður en landsleikur í handbolta hefst.

Það er ekki alveg einfalt mál að sýna sjálfsvitund (identitet) þjóðar í skjölum. Hvað á að draga fram? Hvers konar merki og tákn nota menn til að greina sig frá öðrum? Landið hefur skjaldarmerki og fána, sýslur og sveitarfélög hafa gert sér merki, íþróttafélög hafa sína búninga, fyrirtæki sín vörumerki o.s.frv. Einn kostur er að minnast manna sem hafa unnið afrek í sögunni. Jón Sigurðsson er að verðugu hlaðinn lofi, Skúli Magnússon og Árni Magnússon svo nokkrir séu nefndir. Mörgum slíkum hafa verið gerð minnismerki sem safnast er um á hátíðarstundum. Við hátíðleg tækifæri, á þjóðhátíðardegi og við minnisverðar stikur í Íslandssögunni, er efnt til fagnaðar, gefin út rit, samin ljóð og lög og haldnar hátíðarræður. Ýmis gögn eru til frá slíkum stundum sem getur verið forvitnilegt að skoða og geta gefið fólki tilefni til hugleiðinga, jafnvel innblásturs. Í gögnum undirbúningsnefnda slíkra atburða er ýmislegt að finna um vangaveltur manna um hvernig beri að sýna það besta og merkasta úr þjóðararfinum.

Á sama hátt er forvitnilegt að kanna hvernig þjóðin vill kynna sig út á við. Íslendingar stóðu löngum höllum fæti í viðureign við harðdræga danska kaupmenn og ræningja, en björguðu sjálfsvirðingunni með skáldskapnum og því að leggja sögu sína á minnið. En á síðustu öld hafa þeir staðið í ströngu í landhelgisdeilum við stórveldi heimsins og haft sigur að mestu. Á alþjóðavettvangi hafa Íslendingar fyrst og fremst skarað eld að sinni köku, reynt að tryggja stöðu sína með viðskiptasamningum, en á sama tíma verið nánast taglhnýtingur stórveldanna á vesturlöndum í alþjóðlegum deilum.

Með þátttöku í alþjóðlegum sýningum af ýmsu tagi eru Íslendingar bæði að sýna á sér sparihliðina og líka að segja kost og löst á landi og þjóð. Hvernig viljum við koma fyrir út á við og hvernig viljum við kynna okkur? Þótt slíkar sýningar eða hátíðir séu oft nokkuð yfirborðslegar, einkennist af einhvers konar “glamúr” í einu eða öðru formi, þá er oft forvitnilegt að athuga forsendur þess sem gert er. Hvað hugmyndir menn höfðu og hvað þeir vildu sýna. Oft hafa orðið og verða deilur um hvað á að sýna og hvernig. Á að velja það „besta“ eða á að reyna að gefa sem sannasta mynd af þjóðinni og högum hennar og því sem hún hefur upp á að bjóða?

"Identitet" á íslensku

Við undirbúning skjaladagsins rákum við okkur á að það er ekki heiglum hent að þýða erlenda hugtakið identitet/identity á íslensku svo vel sé. Íslensk orð eins og sjálfsmynd eða sjálfsvitund eru að okkar mati ekki nógu yfirgripsmikil til að vera hliðstæður erlenda hugtaksins.

Ef þú, lesandi góður, lumar á góðri íslenskri þýðingu á þessu hugtaki sem við yrðum sátt við, þá veitum við þér bókaverðlaun fyrir vikið. Við lausn þessa verkefnis kemur án efa að góðu gagni að kynna sér vel efni þessa vefs.

Sendu okkur netpóst með tillögum þínum.