Haus

Skjaldarmerki danska ríkisins Skjaldarmerki danska ríkisins eins og það er nú teiknað. Hvert smáatriði er hugsað og útfært af nákvæmni. Loppur ljónanna eru með fjórar klær, hjörtun eru þrjú og eiga að liggja námkvæmlega eins og hér sést. - Stutt er á milli skjaldarmerkjafræða og innsiglafræða enda algengt að þeir sem áttu skjaldarmerki hefðu þau líka á innsiglum sinum og þannig voru þau tákn einstaklings og ættar.

Innsigli á sjóvegabréfi Innsigli á sjóvegabréfi, útgefnu í Kaupmannahöfn 1849, fyrir skip sem sigldi til Íslands. Rentukammerið (fjármálastjórnin danska) hafði skjaldarmerki danska ríkisins á innsigli sínu eins og hér sést. Berið saman við myndina að ofan. Lyklarnir, sem sjást liggja bak við skjöldin, tákna án efa lyklana að fjárhirslum ríkisins. Í víðum skilningi tákna annars lyklar traust. Þá er vert að benda á fílinn sem hangir neðst á skildinum en hann er táknar t.d. styrk og á að minna á æðsta heiðursmerki Dana, fílaorðuna.

Innsigli Íslands Under min(n)e hende og Insulæ Islandiæ Sigillo Publico. J C Pingel. Pingel var amtmaður 1744-1752 og skrifar hér nafn sitt við innsigli Íslands á alþingi við Öxará í september 1747. Ummælin eru samkvæmt aldagamalli hefð. Danakonugur skrifaði gjarnan Under vor hand og segl (undir vorri hönd og innsigli).



Innsigli

Öldum saman hafa innsigli verið notuð til að staðfesta skriflegan gerning. Þannig auðkenndu menn sig sem persónu með tiltekna stöðu og hlutverk í samfélaginu. Það var hluti sjálfsmyndar eða identitets einstaklings eða embættis. Nokkur dæmi um innsigli síðari alda sem finnast á skjölum í Þjóðskjalasafni verða kynnt hér.

Hér á landi voru innsigli í fyrstu án undirskriftar en síðar (frá 14. 15. öld) jafnan með undirskrift viðkomandi aðila. Elstu varðveittu innsigli hér á landi eru innsigli biskupa og annarra kirkjunnar manna frá 14. öld. Frá því eftir siðaskipti eiga embættismenn og embætti innsigli sem notuð voru í hinu opinbera starfi. Nú á dögum hafa stimplar komið í stað innsigla.

Hér neðst til vinstri er mynd af innsigli Íslands sem var í notkun 1593 og var óbreytt öldum saman óháð hverjir gegndu æðstu embættum landsins (sjá embættisinnsigli). Oft höfðu menn innsigli sem var sérstakt fyrir embættið og þann einstakling sem fór með embættið hverju sinni. Þannig hafði t.d. hver biskup sitt innsigli. Einstaklingar áttu oft innsigli þó einkum þeir sem tóku þátt í opinberum störfum um lengri eða skemmri tíma.















Íslenskur krónupeningur
Þessi krónupeningur er frá þeim tíma sem Ísland var konungsríki (1918-1944). Algengt var og er að hafa skjaldarmerki viðkomandi ríkis á mynt ríkisins.