Öldum saman hafa innsigli verið notuð til að staðfesta skriflegan gerning. Þannig auðkenndu menn sig sem persónu með tiltekna stöðu og hlutverk í samfélaginu. Það var hluti sjálfsmyndar eða identitets einstaklings eða embættis. Nokkur dæmi um innsigli síðari alda sem finnast á skjölum í Þjóðskjalasafni verða kynnt hér.
Hér á landi voru innsigli í fyrstu án undirskriftar en síðar (frá 14. 15. öld) jafnan með undirskrift viðkomandi aðila. Elstu varðveittu innsigli hér á landi eru innsigli biskupa og annarra kirkjunnar manna frá 14. öld. Frá því eftir siðaskipti eiga embættismenn og embætti innsigli sem notuð voru í hinu opinbera starfi. Nú á dögum hafa stimplar komið í stað innsigla.
Hér neðst til vinstri er mynd af innsigli Íslands sem var í notkun 1593 og var óbreytt öldum saman óháð hverjir gegndu æðstu embættum landsins (sjá embættisinnsigli). Oft höfðu menn innsigli sem var sérstakt fyrir embættið og þann einstakling sem fór með embættið hverju sinni. Þannig hafði t.d. hver biskup sitt innsigli. Einstaklingar áttu oft innsigli þó einkum þeir sem tóku þátt í opinberum störfum um lengri eða skemmri tíma.