Á Akureyri kaus fyrsta íslenska konan til bæjarstjórnar árið 1863, hún hét Vilhelmína Lever og rak verslun og veitingasölu.
Árið 1910 buðu konur á Akureyri fram sérstakan lista við bæjarstjórnarkosningar en kom engri konu að. Árið 1911 var aftur boðinn fram kvennalisti og hlaut hann 79 atkvæði af 472 og kom einum fulltrúa að, Kristínu Eggertsdóttur, sem þá var forstöðukona Sjúkrahússins á Akureyri.
Árið 1921 var enn boðinn fram kvennalisti, hlaut hann 161 atkvæði af 550 og kom einum fulltrúa að, þ.e. Halldóru Bjarnadóttur, skólastjóra Barnaskólans á Akureyri.
Kvennafrídagurinn 24. október 1975 var haldinn á Akureyri með geysigóðri þátttöku. Tíu árum síðar var þessum kvennaáratug lokið með glæsibrag þegar minnst var 10 ára afmælis kvennafrídagsins.
Eftir kvennafrídaginn 24. október 1975 stóð undirbúningshópur þess dags á Akureyri að stofnun starfshópa um jafnréttismál. Þar voru uppi hugmyndir og umræður um sérframboð kvenna fyrir bæjarstjórnarkosningar árið 1978 en komst ekki í framkvæmd.
Jafnréttishreyfingin á Akureyri varð til árið 1981. Áhugahópur innan hennar stóð fyrir almennum fundi 8. júlí 1981 til að kanna viðhorf fólks til kvennaframboðs og þann 20. júlí sama ár var endanlega ákveðið að bjóða fram lista eingöngu skipaðan konum í bæjarstjórnarkosningunum 1982. Kvennaframboðið á Akureyri kom þá tveimur fulltrúum að, þeim Valgerði H. Bjarnadóttur og Sigfríði Þorsteinsdóttur.
Jafnréttisnefnd Akureyrarbæjar var sett á stofn eftir bæjarstjórnarkosningar 1982. Fyrsti formaður hennar var Karólína Stefánsdóttir, sem einnig hafði verið fyrsti formaður Jafnréttishreyfingarinnar á Akureyri.
Fyrsta jafnréttisáætlun Akureyrarbæjar var samþykkt árið 1989 og gilti til 1993. Síðan hafa verið samþykktar slíkar áætlanir fyrir árin 1993-1997, 1998-2003 og núgildandi áætlun eða Jafnréttisstefna 2003-2007.
Valgerður H. Bjarnadóttir var ráðin til starfa 1991 sem jafnréttisfulltrúi Akureyrar og var þetta í fyrsta sinn sem ráðið var í slíkt embætti hjá íslensku sveitarfélagi.
Akureyrarbær hlaut fyrstu viðurkenningu Jafnréttisráðs árið 1992 fyrir átak í jafnréttismálum, síðan hafa 13 aðilar, fyrirtæki, stofnanir, félög, sveitarfélög og einstaklingar fengið slíka
viðurkenningu.