Haus
Kjörbók til kosninga bæjarfulltrúa á Akureyri 1863 Kjörbók til kosninga bæjarfulltrúa á Akureyri 1863.

Vilhelmína Lever Vilhelmína Lever séð med augum listamanns Kristins G Jóhannssonar.

Kristín Eggertsdóttir Kristín Eggertsdóttir.


Frumkvöðlar

Fyrsta konan sem kaus til sveitarstjórnar á Íslandi var Maddama Vilhelmína Lever

Vilhelmína var fædd 1. mars 1802, dáin 19. júní 1879. Hún var dóttir Hans Vilhelms Lever kaupmanns á Akureyri, sem kenndi Akureyringum kartöflurækt og fyrri konu hans Þuríðar Sigfúsdóttur.

Vilhelmína keypti lóð á Akureyri 1834 og byggði lítið hús og hóf þar verslun 1835. Hún var kölluð „borgarinna“ eða „höndlunarborgarinna.“ Árið 1846 seldi hún Þorsteini Daníelssyni verslunarhús sín og flutti út í Krossanes. Hún kom þó aftur til bæjarins 1852 og rak verslun og veitingasölu. Árið 1861 opnaði hún veitingasölu á Oddeyri og rak hana um árabil, var hún þá gjarnan kölluð „Vertshús-Mína“.

Vilhelmína giftist tvítug að aldri Þórði Daníelssyni frá Skipalóni, þau skildu, en eftir það hjónaband eignaðist hún soninn Hans Vilhelm.

Vilhelmína fær hin bestu eftirmæli og í Norðanfara segir 4. júlí 1879: Kona þessi var einkar vel gáfuð og í mörgu tilliti fágæt afbragskona, framkvæmdar- og starfssöm, veglynd og fús til hjálpar og velgjörðarmóðir margra fátækra og munaðarlausra. Í Norðlingi segir: Hún var einhver hin framkvæmdasamasta og duglegasta kona sinnar tíðar og hafði gott hjarta.

Akureyrarbær öðlaðist kaupstaðarréttindi 1862 og skv. nýrri reglugerð var kosið til bæjarstjórnar 31. mars 1863. Skv. reglugerðinni höfðu kosningarétt allir fullmyndugir menn („alle fuldmyndige Mænd“), sem ekki voru hjú, höfðu verið búfastir í bænum síðasta árið og borguðu a.m.k. 2 ríkisdali í bæjargjöld. Vilhelmína féll undir öll þessi ákvæði og er efst á blaði á fyrstu síðu í kjörbókinni. Aftur kaus hún svo til bæjarstjórnar 3. jan. 1866. Í danska textanum átti orðið „Mænd“ örugglega að þýða karlmenn en vegna þess að í íslenska textanum stóð „menn“ en ekki „karlar“ fékk Vilhelmína að kjósa.

Fyrsta konan sem tók sæti í bæjarstjórn Akureyrar var Kristín Eggertsdóttir

Kristín Eggertsdóttir fæddist 20. apríl 1877 á Kroppi. Hún stundaði nám við Kvennaskólann á Laugalandi 1888-90 og 1892-94. Hún var í Noregi 1905-07 og var þar m.a. í hússtjórnarskóla. Kristín var við kennslu í Munkaþverársókn 1895-96 og Kvennaskólann á Akureyri 1896-1901. Kristín var forstöðukona Sjúkrahúss Akureyrar 1907-12. 1915 festi hún kaup á Hótel Oddeyri en þá hafði hún þegar byrjað með greiðasölu. Kristín rak Hótel Oddeyri til dauðadags 27. febrúar 1924.

Kristín var kjörin í bæjarstjórn Akueyrar í janúar 1911, fyrst akureyrskra kvenna. Óvenju margir listar voru þá í kjöri eða sjö talsins. Voru yfirleitt tveir frambjóðendur á hverjum þeirra en þó aðeins einn á tveimur og skipaði Kristín annan þeirra. Kosningin gekk henni í hag og fékk hún næstflest atkvæði frambjóðenda. Í janúar 1914 var tíminn hennar í bæjarstjórninni liðinn. Bauð hún sig þá fram öðru sinni, var þar efst á lista en komst ekki að. Sem bæjarfulltrúi átti Kristín sæti í kjörstjórn 1911-13, í skólanefnd 1913 og fátækranefnd 1911-13.

Kristín hafði ákveðnar skoðanir og framkvæmdi það sem hún ætlaði sér. Hún þótti dálítið hörð og gat orðið dálítið hvassyrt um það sem henni þótti miður fara. Kvenfélagið Hlíf naut liðstyrks hennar og hún gaf fé til að efla menntun kvenna. Kristín var vel að sér í tungumálum og pantaði t.d. oft vörur frá útlöndum fyrir sjálfa sig og aðrar konur. Hún hafði mikinn áhuga á listum, s.s. leiklist og tónlist og átti snemma grammófón og plötur með þekktustu söngvurum þess tíma. Kristín bar sig vel og var vel klædd og gekk t.a.m. ekki í peysufötum.