• Skjöl Kaupfélags Árnesinga hins fyrsta.
  • Skjöl Kaupfélags Árnesinga hins fyrsta.

Verslunarstaður Sunnlendinga fyrr á öldum var Eyrarbakki en 1868 komst öll verslun á "Bakkanum" í hendur Lefolii ættarinnar. 1883 voru löggiltir tíu nýir verslunarstaðir á landi. Einn þeirra var Stokkseyri. Verslun á Stokkseyri hófst þó ekki fyrr en sex árum síðar. Meðal skjala sem varðveitt eru á Héraðsskjalasafni Árnesinga eru skjöl Kaupfélags Árnesinga hins fyrsta, 2004/24, en félagið verslaði m.a. á Stokkseyri. Hér fylgir stuttur kafli úr BA-ritgerð Lýðs Pálssonar forstöðumanns Byggðasafns Árnesinga.

"Árið 1888 var fyrsta kaupfélagið stofnað í Árnessýslu og öllu Suðurlandi. Nefndist það Kaupfélag Árnesinga. Stjórnarmenn þess alla tíð voru Gunnlaugur Þorsteinsson á Kiðjabergi, séra Magnús Helgason á Torfastöðum og Skúli Þorvarðarson alþingismaður á Berghyl. Starfaði félagið sem pöntunarfélag og hafði viðskipti við Louis Zöllner í Newcastle. Því var það oft kallað Zöllnersfélagið. Bændur pöntuðu vörur og lofuðu ull, sauðum og hrossum í staðinn. Afhendingarstaður var Reykjavík enda sjaldgæft að sauðaskip kæmu til hafna austan Fjalls. Flestir þátttakendur í þessu félagi voru úr vesturhluta Árnessýslu auk þátttöku úr Hreppum og Ölfusi og nokkurra austan úr Holtum og af Landi. Langt var fyrir bændur austan Ölfusár, sem áttu stutta leið á „Bakkann“, að fara til Reykjavíkur. Þeir töldu hagkvæmara að afgreiðsla félagsins væri austan Hellisheiðar og var Stokkseyri nefnd sem heppilegur staður enda nýbúin að fá verslunarréttindi og höfn. Á árinu 1891 var Kaupfélagi Árnesinga skipt i tvennt, sumir segja að hafi orðið klofningur. Vesturhluti Árnessýslu hélt áfram að nota Reykjavík sem uppskipunarstöð, en austurhlutinn, ásamt nokkrum hreppum í Rangárvallasýslu, skipaði hið nýja kaupfélag sem nefnt var Stokkseyringafélagið. Það óx og dafnaði samhliða Kaupfélagi Árnesinga og var gert upp rétt eftir aldamótin en Stokkseyringafélagið hökti til 1920."

Heimild:
Lýður Pálsson: „Að versla suður. Verslun og afurðasala Árnesinga frá 1900-1930“. BA-ritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands. Bls. 19-20.

Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011