Verslunarstaður Sunnlendinga fyrr á öldum var Eyrarbakki en 1868 komst öll verslun á "Bakkanum" í hendur Lefolii ættarinnar. 1883 voru löggiltir tíu nýir verslunarstaðir á landi. Einn þeirra var Stokkseyri. Verslun á Stokkseyri hófst þó ekki fyrr en sex árum síðar. Meðal skjala sem varðveitt eru á Héraðsskjalasafni Árnesinga eru skjöl Kaupfélags Árnesinga hins fyrsta, 2004/24, en félagið verslaði m.a. á Stokkseyri. Hér fylgir stuttur kafli úr BA-ritgerð Lýðs Pálssonar forstöðumanns Byggðasafns Árnesinga.
"Árið 1888 var fyrsta kaupfélagið stofnað í Árnessýslu og öllu Suðurlandi. Nefndist það Kaupfélag Árnesinga. Stjórnarmenn þess alla tíð voru Gunnlaugur Þorsteinsson á Kiðjabergi, séra Magnús Helgason á Torfastöðum og Skúli Þorvarðarson alþingismaður á Berghyl. Starfaði félagið sem pöntunarfélag og hafði viðskipti við Louis Zöllner í Newcastle. Því var það oft kallað Zöllnersfélagið. Bændur pöntuðu vörur og lofuðu ull, sauðum og hrossum í staðinn. Afhendingarstaður var Reykjavík enda sjaldgæft að sauðaskip kæmu til hafna austan Fjalls. Flestir þátttakendur í þessu félagi voru úr vesturhluta Árnessýslu auk þátttöku úr Hreppum og Ölfusi og nokkurra austan úr Holtum og af Landi. Langt var fyrir bændur austan Ölfusár, sem áttu stutta leið á „Bakkann“, að fara til Reykjavíkur. Þeir töldu hagkvæmara að afgreiðsla félagsins væri austan Hellisheiðar og var Stokkseyri nefnd sem heppilegur staður enda nýbúin að fá verslunarréttindi og höfn. Á árinu 1891 var Kaupfélagi Árnesinga skipt i tvennt, sumir segja að hafi orðið klofningur. Vesturhluti Árnessýslu hélt áfram að nota Reykjavík sem uppskipunarstöð, en austurhlutinn, ásamt nokkrum hreppum í Rangárvallasýslu, skipaði hið nýja kaupfélag sem nefnt var Stokkseyringafélagið. Það óx og dafnaði samhliða Kaupfélagi Árnesinga og var gert upp rétt eftir aldamótin en Stokkseyringafélagið hökti til 1920."
Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011