• Pétur Pétursson og Árni Óskarsson í Radíó- og Sjónvarpsstofunni sf.
  • Pétur Pétursson og Árni Óskarsson í Radíó- og Sjónvarpsstofunni sf.

Á 25 ára afmæli Selfosshrepps, 1972, stóð framkvæmdanefnd Árvöku Selfoss fyrir útgáfu á þáttum úr sögu Selfoss, fyrirtækja, félaga og stofnanna í kauptúninu. Þá var einnig haldin sýning þar sem starfsemi þessara aðila var kynnt. Árvaka Selfoss hefur verið afhent á Héraðsskjalasafn Árnesinga. Í safni Tómasar Jónssonar 2010/45 er m.a. að finna ljósmyndir tengdar Radíó- og Sjónvarpsstofunni sf. sem lengi vel var eina sérverslun sinnar tegundar á Suðurlandi, stofnað 1965 af Pétri Péturssyni radíóvirkja. Árni Óskarsson gekk fljótlega til liðs við Pétur og gerðist helmings eigandi fyrirtækisins. Grípum nú niður í Árvökuna.

„Radíó- og sjónvarpsstofan sf.
Austurvegi 11 - Selfossi - Sími 99-1492

Fyrirtækið flutti í nýtt húsnæði ... að Austurvegi 11 þann 1. maí 1967. Breyttust þá starfsskilyrði fyrirtækisins mikið, með stórbættri þjónustu á hljóðvarps- og sjónvarpstækum ásamt helmingi stærra verzlunarplássi fyrir margfallt meira vöruúrval ... Radíó- og Sjónvarpsstofan sf. er eina hljómplötuverzlunin og eina sérverzlunin ásamt viðgerðarþjónustu fyrir hljóðvarps- og sjónvarpstæki á Suðurlandi, enda hafa einkunnarorð fyrirtækisins verið:

„Tryggið yður fullkomna varahluta- og viðgerðaþjónustu með því að skipta við einu sérverzlun fyrir hljóðvarps- og sjónvarpstæki á Suðurlandi.“

„Hljómplötuúrval og allt fyrir hljóðvarp og sjónvarp.“

„Verzlun - viðgerðir.“

Radíó- og Sjónvarpsstofan sf. hefur einkaumboð á Íslandi fyrir LUMOPHON hljóðvarps- og sjónvarpstæki, en Lumophoon er eitt af dótturfyrirtækjum hinnar stóru heimsþekktu Grundig samsteypu. Ennfremur hefur fyrirtækið söluumboð fyrir ... Philips, Garrard og Radionette.

Hljómplötur selur fyrirtækið frá Fálkanum og Hljóðfærahúsi Reykjavíkur, en þessir tveir aðilar hafa einkaumboð fyirr alla stærstu hljómplötuframleiðendur heimsins. Ennfremur eru á boðstóllum hljómplötur allra íslenzku hljómplötuútgáffanna, en helztar þeirra eru SG-Hljómplötur, Fálkinn og Tónaútgáfan.“

Heimild:
Árvaka Selfoss.

Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011