• Konur við störf á saumastofu. ÞÍ. ASÍ. Ljósmyndasafn Jóns Bjarnasonar frá Lundi.
  • Unnið við húsgagnabólstrun. ÞÍ. ASÍ. Ljósmyndasafn Jóns Bjarnasonar frá Lundi.
  • Um borð í síðutogara. ÞÍ. ASÍ. Ljósmyndasafn Jóns Bjarnasonar frá Lundi.
  • Kjörbúðin Kron við Langholtsveg 130, 15. des. 1958. ÞÍ. ASÍ. Ljósmyndasafn Jóns Bjarnasonar frá Lundi.
  • Innfluttir bílar. ÞÍ. Vegagerð ríkisins, samgöngumyndir 1974.
  • Vefstóll. ÞÍ. Rtk.19.1 Ferðabók Ólafs Olavius.
  • Snið af löggiltum sokki frá 1756. Eftir því var smíðað sokkatré og við það átti innlend sokkaframleiðsla að miðast. ÞÍ. Rtk.32.34-9.

Norræni skjaladagurinn í ár er helgaður verslun og viðskiptum. Í Þjóðskjalasafni Íslands og héraðsskjalasöfnunum er óheyrilegt magn skjala sem snertir þessa málaflokka. Varðveist hafa verslunarbækur fjölmargra verslana frá 19. og 20. öld, einnig nokkuð frá 18. öld þótt í minna mæli sé. Eru þetta bæði gögn stórra verslunarfélaga, kaupfélaga og smákaupmanna. Þessi gögn sýna m.a. úttektir einstakra viðskiptamanna og bregða þannig ljósi á neyslumunstur forfeðra vorra. Nútímamanni finnst gegna furðu hvað vörukaup 19. aldar fólks voru í rauninni lítil. Það er timbur og járn, kornvara og smávegis af munaðarvöru (tóbak og brennivín). Einnig smávegis af klæðaefni þótt meginþorri fatnaðar hafi verið framleiddur heima á búi. Til er að þriðja aðila sé greitt með millifærslu sem er þá vísir að bankaþjónustu.

Mikilvægur flokkur skjala er skýrslur um verðlag, innflutning og útflutning varnings, búnað og útveg og hvers konar framleiðslu. Skylt þessu eru skrár um verðlag en með samanburði á þeim má rekja þróun verðbreytinga (verðbólgu) og breytingar á innbyrðis verðmætasköpun í einstökum atvinnugreinum.

Framleiðsla landsmanna var lengstum sjávar- og landbúnaðarafurðir, fiskur, hertur og saltaður; lýsi og feitmeti, prjónles og kjötafurðir. Á 18. öld voru gerðar markvissar tilraunir með nýjar framleiðslugreinar, þegar Innréttingarnar voru stofnaðar í Reykjavík, að forgöngu Skúla Magnússonar sem á 300 ára fæðingarafmæli á þessu ári. Þar var m.a. stundaður vefnaður og færaspuni, einnig má nefna saltsuðuna á Reykjanesi, skútuútgerð og fleira. Árið 1786 voru stofnaðir sex kaupstaðir til að styrkja verslun og viðskipti á viðkomandi stöðum (Reykjavík, Grundarfjörður, Ísafjörður, Akureyri, Eskifjörður og Vestmannaeyjar).

Viðskipti eru ekki aðeins bundin við varning, heldur líka kaup og sölu jarða, sem á miðöldum og lengi síðan var helsti möguleiki „fjárfesta“ til að möndla með fjármagn sitt. Frá miðöldum eru varðveitt fjölmörg skinnbréf þar sem jarðakaup eru skjalfest og heldur sú slóð áfram fram á tuttugustu og fyrstu öldina í veðmálabókum og veðmálaskrám. Það verður líka að hafa í huga að skjöl þurfa ekkert endilega að vera gömul, skjöl frá síðari árum eru líka merkileg, jafnvel þótt þau séu vélrituð á þunnan pappír og kannski krumpuð.

Í skjalasöfnunum eru varðveitt gögn frá einstaklingum sem varpa ljósi á neyslu þeirra, sumir hirðumenn hafa geymt kvittanir og reikninga jafnvel frá öllu æviskeiðinu. Mætti það vera okkur nútímamönnum áminning um að ganga betur um arfleifðina, í smáu jafnt sem stóru.

Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011