• 1. Listi yfir ullarframleiðsluna úr Viðey sem Steinunn Björnsdóttir (1709-1785), landfógetafrú, lagði inn til litunar árið 1756 hjá Innréttingunum í Reykjavík. (ÞÍ. Stiftamtmaður III. 195/20).
  • 2. Veljum íslenskt. Sýnishorn af framleiðslu Innréttinganna í Aðalstræti. (ÞÍ. Rentukammer. 33.36. Isl. Journal B, nr. 3131).
  • 3. Tillögur Skúla Magnússonar um eflingu Hins íslenska hlutafélags og um allsherjarviðreisn Íslands sem lagðar voru fyrir konung hinn 20. nóvember 1751.

Hinn 12. desember n.k. verða 300 ár liðin frá fæðingu Skúla Magnússonar, sýslumanns (1734-1749) og landfógeta (1749-1793). Skúli hefur oft verið nefndur faðir Reykjavíkur enda var hann einn af forvígismönnum Innréttinganna í Reykjavík og í landfógetatíð hans fékk Reykjavík kaupstaðaréttindi árið 1786 þegar verslun í landinu var gefin frjáls innan danska ríkisins. Í ræðu og riti beitti Skúli sér fyrir umbótum í verslunarmálum Íslands. Um það bera vitni ýmsar ritgerðir og tillögur sem eftir hann liggja, sumt útgefið, annað í handritum, og fjalla þær margar um verslun, hagfræði og landbúnað.

Embættismenn á Íslandi stofnuðu Hið íslenska hlutafélag á Þingvöllum sumarið 1751 og bundust samtökum um stofnun vefsmiðju á Íslandi að erlendri fyrirmynd. Skúli Magnússon var í þessum hópi og þá um haustið hélt hann utan til Hafnar og lagði fyrir konung hugmyndir um eflingu félagsins og tillögur um allsherjarviðreisn Íslands. Í greinargerðinni um bættan þjóðarhag á Íslandi var m.a. gert ráð fyrir stofnun ullarvefsmiðja, brennisteins- og saltvinnslu, akuryrkju, þilskipaútgerð, trjárækt, kaðlagerð, sútun, skipasmíðum og fleiru. Hluti af starfseminni fékk einkaleyfi frá konungi. Tekið var á öllum hliðum atvinnulífsins ef frá er talin verslun, en henni var sinnt af öðru félagi, verslunarfélagi einokunarkaupmanna.

Ofangreint fyrirtæki er betur þekkt sem Innréttingarnar og voru meginumsvif þess í Reykjavík. Tauvefsmiðjan sem Hið íslenska hlutafélag stofnaði 1751 á Leirá var flutt til Reykjavíkur 1755 og klæðavefsmiðja Innréttinganna sem var stofnsett á Bessastöðum árið 1752 en flutt til Reykjavíkur fjórum árum síðar. Vefsmiðjurnar stóðu þar sem nú er Aðalstræti 12-14. Klæða- og tauframleiðsla sem byggði á aldagömlu evrópsku handverki var starfrækt á vegum Innréttinganna í ríflega hálfa öld, eða fram til 1803. Fjöldi handverksmanna hlaut menntun í vefsmiðjunum og þegar best lét var spunnið garn fyrir framleiðsluna á heimilum víða um Suður-, Vestur- og Norðurland auk nærsveita.

Auk þess sem hefðbundinn íslenskur heimilisiðnaður var nýttur til að spinna garn fyrir vefsmiðjurnar gátu hluthafar í félaginu sent ullarframleiðslu af sínum eigin búum til litunar í Reykjavík. Dæmi um það er sjálf landfógetafrúin, Steinunn Björnsdóttir (1709-1785) kona Skúla, sem árið 1756 lagði inn til litunar hjá Innréttingunum framleiðslu Viðeyjarbúsins, þar sem þau hjónin bjuggu. Mest vildi Steinunn fá litað blátt, t.d. 11 peysur, 24 hespur af garni, 18 ½ alin af ullarskeftudúk og 26 álnir af einskeftu. Þá vildi hún fá fimm garnhespur litaðar ljósgrænar og átta álnir einskeftu og vaðmáls litaðar rauðar, svo fátt eitt sé nefnt.

Í Þjóðskjalasafni eru varðveittar margar af helstu heimildum um embættismanninn Skúla Magnússon, Innréttingarnar og almennt um þetta tímabil í sögu þjóðarinnar, og eru hér birt nokkur skjöl sem varpa á þetta ljósi.

Nánar um mynd 3

Upphaf skjalsins er svohljóðandi:

Allerunderdanigste Relation om Islands nærværende Tilstand og Project. Hvorleedes Samme igien kand frelses fra den totale Ruin, som det nu alt meere og meere trues med at erholde, i fald det ei i Tiide forekommes.

ÞÍ. Rentukammer. 32.20. Isl. Journal A, nr. 1528.

Heimildir:
  1. Einar Laxness: Íslandssaga a-ö I-III. Alfræði Vöku-Helgafells. Reykjavík 1995.
  2. Hrefna Róbertsdóttir: Landsins forbetran. Innréttingarnar og verkþekking í ullarvefsmiðjum átjándu aldar. Sagnfræðirannsóknir - Studia historica 16. Ritstjóri Gunnar Karlsson. Reykjavík 2001.
  3. Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár IV. Frá landnámstímum til ársloka 1940. Reykjavík 1951.

Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011