Í ár er þess minnst að 200 ár eru liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar forseta (f. 17. 06. 1811- d. 7. 12. 1879). Hann er einn helsti og þekktasti stjórnmálamaður íslenskur. Heitið Jón forseti fékk hann vegna þess að hann var forseti Kaupmannahafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags um áratugaskeið. Hann var einnig forseti Hins íslenska þjóðvinafélags og oft forseti Alþingis.
Ungur að árum var Jón ritari biskupsins yfir Íslandi. Hann fór síðan til náms í Danmörku og dvaldi þar og starfaði lengstum. Jón var skjalavörður Konunglega fornfræðafélagsins um tíma. Hann var mikilvirkur fræðimaður, safnaði handritum auk þess að gefa út mörg rit um íslensk málefni, sögu og bókmenntir. Hann var leiðtogi Íslendinga í baráttu þeirra við dönsk stjórnvöld um aukið frelsi til þess að ráða málum sínum sjálfir en á þeim árum var Ísland hluti danska konungsríkisins. Sagt var að Jón Sigurðsson hafi verið „óskabarn Íslands, sómi þess, sverð og skjöldur“. Stofnun lýðveldis á Íslandi árið 1944 fór fram á fæðingardegi Jóns 17. júní og er sá dagur síðan þjóðhátíðardagur Íslendinga.
Frá andláti Jóns Sigurðssonar hefur verið lagt kapp á að varðveita minningu hans og þess hefur verið vel gætt að varðveita eigur hans og skjöl. Í Þjóðskjalasafni er varðveittur stór hluti einkaskjala Jóns (E-10) og er safnið í alls 23 öskjum.
Eins og alkunnugt er átti Jón forseti í margháttuðum viðskiptum fyrir landsmenn sína. En hann var einnig hirðusamur á eigin gögn og í þremur öskjum í skjalasafni hans er að finna kvittanir og reikninga sem snerta daglegan rekstur á heimilinu, kaup á marvíslegum nauðsynjum, fatnaði, blaðaáskrift, víni, bókum og fleiru. Hér eru birt nokkur skjöl sem sýna þetta.
Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011