• Í Þjóðskjalasafni eru varðveittar margar öskjur skjala frá Jóni Sigurðssyni forseta. Fjölmargar kvittanir fyrir vörukaupum Jóns er þar að finna. Samkvæmt þessari nótu frá 30. desember 1859 kaupir Jón í M.M. Ruben Östergade 68, 1 franskan hatt á 8 ríkisdali, 1 par af hönskum. Þeir 2 skildingar sem Jón greiðir fyrir 1 hat oppudset er líklega greiðsla fyrir að láta pússa hatt. Hér er verið að tala um pípuhatta. Alls eru viðskiptin 9 ríkisdalir og 4 skildingar. (ÞÍ. E-10.20. Einkaskjalasafn Jóns Sigurðssonar).
  • Áramótavínið árið 1876 keypti Jón Sigurðsson hjá I. Bauer. En þar var hægt að kaupa ungversk vín eins og sést á kvittuninni. 7 flöskur víns kaupir Jón á rúmlega 20 krónur og fær þær sendar heim til sín. Takið eftir að nú er búið að taka upp krónur í stað ríkisdala. Á þessum árum er ærverð heima á Íslandi 13-14 kr. Jón kaupir vínið í Tordenskjoldsgade 19 á horni Holbergsgade og Tordenskjoldsgade. (ÞÍ. E-10.20. Einkaskjalasafn Jóns Sigurðssonar).
  • Þessi reikningur er stílaður á Archivar (skjalavörð) Jon Sigurdsson og dagsett 27. mars 1856. Reyndar er einnig að finna ártalið 1857 á reikninginum. Ætli hærri talan gildi ekki. Hvað sem því líður er öruggt að 8. janúar og 27. mars, annað hvort árið, kaupir Jón kúbanska vindla á horni Vimmelskafts og Nygade nr. 93 í Kaupmannahöfn. Alls geiðir hann 7 ríkisdali og 3 merkur. Það hefur löngum verið dýrt að reykja. (ÞÍ. E-10.20. Einkaskjalasafn Jóns Sigurðssonar).
  • Herr Sigurdsen borgar hér fyrir ársfjórðungs áskrift af Folkets Nisse, myndskreyt vikublað sem út kom í Danmörku á 19. öld, háðskt og gamansamt. Greiðslan er innt af hendi fyrirfram 1. janúar 1873. Fjórðungsárgjaldið var 64 skildingar (96 skildingar voru 1 ríkisdalur). Harald Jensen starfsmaður blaðsins kvittar fyrir viðskiptin af hálfu blaðsins. (ÞÍ. E-10.20. Einkaskjalasafn Jóns Sigurðssonar).
  • Í mars 1877 freistar Jón Sigurðsson gæfunnar með því að kaupa happdrættismiða hjá hinu Kongelige Kjøbenhavnske Klasse - Lotteri. Líklegt má telja að Jón hafi ekki haft erindi sem erfiði. Miðinn var keyptur í Købmagergade þar sem Íslendingar hafa þrammað öldum saman. (ÞÍ. E-10.20. Einkaskjalasafn Jóns Sigurðssonar).
  • Flestar kvittanir fyrir innkaupum í skjalasafni Jóns Sigurðssonar eru stílaðar á húsbóndann. Hér er þó ein stíluð á Fru Sivertson. Ingibjörg kona Jóns hefur í marsmánuði árið 1865 keypt að því er virðist nótur fyrir heimilið. Kannski hefur þurft að æfa Polka og Vals ef rétt er ráðið í kvittun þessa. (ÞÍ. E-10.20. Einkaskjalasafn Jóns Sigurðssonar).
  • Þessi kvittun sýnir ef til vill skókaup ársins 1872 í skóverslun Eduard Hartvig Gothersgötu 2. Dýrastir voru "Ridskinds Stövler" (líklega rússkins stígvél) á 7 ríkisdali. (ÞÍ. E-10.20. Einkaskjalasafn Jóns Sigurðssonar).
  • Hér er upphaf af viðskiptayfirliti Jóns Sigurðssonar, upp á þrjár síður. Yfirlitið sýnir hvað bækur og tímarit Jón keypti af bókaverlsun H. Hagerup árið 1868. Jón hefur tekið bækur út í reikning og greitt ársviðskiptin í lok árs. Viðskipti ársins 1868 námu alls 201 ríkisdal að meðtölum þeim 67 ríkisdölum sem ógreiddir voru frá árinu áður. Til eru einning kvittanir yfir viðskipti Jóns við bókbindara sem sýna hvað hann lét binda inn. (ÞÍ. E-10.20. Einkaskjalasafn Jóns Sigurðssonar).

Í ár er þess minnst að 200 ár eru liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar forseta (f. 17. 06. 1811- d. 7. 12. 1879). Hann er einn helsti og þekktasti stjórnmálamaður íslenskur. Heitið Jón forseti fékk hann vegna þess að hann var forseti Kaupmannahafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags um áratugaskeið. Hann var einnig forseti Hins íslenska þjóðvinafélags og oft forseti Alþingis.

Ungur að árum var Jón ritari biskupsins yfir Íslandi. Hann fór síðan til náms í Danmörku og dvaldi þar og starfaði lengstum. Jón var skjalavörður Konunglega fornfræðafélagsins um tíma. Hann var mikilvirkur fræðimaður, safnaði handritum auk þess að gefa út mörg rit um íslensk málefni, sögu og bókmenntir. Hann var leiðtogi Íslendinga í baráttu þeirra við dönsk stjórnvöld um aukið frelsi til þess að ráða málum sínum sjálfir en á þeim árum var Ísland hluti danska konungsríkisins. Sagt var að Jón Sigurðsson hafi verið „óskabarn Íslands, sómi þess, sverð og skjöldur“. Stofnun lýðveldis á Íslandi árið 1944 fór fram á fæðingardegi Jóns 17. júní og er sá dagur síðan þjóðhátíðardagur Íslendinga.

Frá andláti Jóns Sigurðssonar hefur verið lagt kapp á að varðveita minningu hans og þess hefur verið vel gætt að varðveita eigur hans og skjöl. Í Þjóðskjalasafni er varðveittur stór hluti einkaskjala Jóns (E-10) og er safnið í alls 23 öskjum.

Eins og alkunnugt er átti Jón forseti í margháttuðum viðskiptum fyrir landsmenn sína. En hann var einnig hirðusamur á eigin gögn og í þremur öskjum í skjalasafni hans er að finna kvittanir og reikninga sem snerta daglegan rekstur á heimilinu, kaup á marvíslegum nauðsynjum, fatnaði, blaðaáskrift, víni, bókum og fleiru. Hér eru birt nokkur skjöl sem sýna þetta.

Heimild:
ÞÍ. E-10.20. Einkaskjalasafn Jóns Sigurðssonar.

Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011