Ein sérkennilegasta útflutningsafurð Íslendinga voru fálkar og stóð sú verslun frá því á miðöldum fram um 1800. Víða í fornritum er getið um fálkaveiðar sem þótti fínt sport meðal fyrirfólks í Evrópu. Styrjaldir á 18. öld og umrótið eftir frönsku stjórnarbyltinguna 1789, ásamt breyttri tísku og lífsvenjum aðalsins batt enda á fálkaveiðar fyrirfólks.
Danakonungur fékk fálka víða að úr ríkjum sínum, frá Noregi, Íslandi og Grænlandi og nýtti sér þá til að treysta diplomatísk vinabönd við fursta víðs vegar um Evrópu og raunar víðar, m.a. við sjóræningjaveldin í Norður-Afríku.
Heimildir um veiðar á fálkum hér á landi eru strjálar framan af en þegar kemur fram á 18. öld er hægt að rekja þróun veiðanna í opinberum reikningum yfir kaup á fálkum af fálkaveiðimönnum. Var reist sérstakt fálkahús á Bessastöðum og í Reykjavík til þess að geyma fálkana í meðan þeir biðu útflutnings til Danmarkur. Árlega var keypt mikið magn nauta- og kindakjöts til að fæða dýrin.
Fálkarnir voru ýmist teknir úr hreiðrum, egg eða ungar, eða veiddir í gildrur sem oftast voru búnar til með neti sem fálkinn flæktist í. Var rjúpa gjarnan notuð fyrir agn þegar þannig var veitt og galt þá jafnan fyrir með lífi sínu. Kenningarorðið fálkafangari kemur alloft fyrir í heimildum og virðist heldur hafa verið virðingarnafn. Í manntalinu 1703 eru þrír menn kallaðir fálkafangarar. Um miðja 18. öld voru greiddir 5-15 ríkisdalir fyrir hvern fálka eftir lit og gæðum. Hvítir fálkar voru dýrastir enda sjaldgæfir.
Nánar um mynd 1
Hér er bréf frá Holstein greifa, overjægermester, þar sem hann segir að vanti fálka. Biður hann rentukammerið að skipa íslenskum fálkaföngurum að veiða 30 fálka næsta ár og þar af nokkra hvíta. Ástæður vöntunarinnar koma fram í upphafi bréfsins: „Saavel til komplettering af det her ved falkoneriet reglementerede antal falke, hvoraf 4 stk. i aar ere sendte til kejseren i Marocko, som og til present for det portugisiske hof der i næste aar tilkommer falke.“ Lausleg þýðing gæti hljóðað svo: „Bæði til þess að tryggja nægan fjölda fálka hér í fálkageymslunni, en fjórir þeirra verða sendir til keisarans í Marokkó í ár, og til þess að geta gefið portúgölsku hirðinni fálka næsta ár.“
ÞÍ. Rentukammer 45.8. Isl. Journ. 10, nr. 622.
Nánar um mynd 2
Reikningur yfir fálka sem fálkavörður konungs, Wilhelm Verhoven, tók á móti árið 1717 og flutti til Kaupmannahafnar á skipi Jens Jörgensens, sem hét Marie med Barnet og sigldi frá Hólmens höfn (Reykjavík) með 48 fálka innanborðs. Greiðslur vegna fálkaveiðimanna voru þessar:
Hvide falke | Halv hvide | Graa falke | Rixdler | |
1. Hr. lögmand Laurids Christensen Gottrup | 6 | 30 | ||
2. Hans Danielson | 1 | 7 | 50 | |
3. Bendix Jonson | 1 | 1 | 8 | 65 |
4. Jón Thorvardson | 10 | 50 | ||
5. Steindor Helgeson | 2 | 5 | 55 | |
6. Hannes Dadeson | 5 | 25 | ||
7. Jon Jonson | 2 | 10 | ||
Summa | 4 | 1 | 43 | 285 |
ÞÍ. Rentukammer Y, 18, nr. 7. Fylgiskjöl með athugasemdum við reikninga jarðabókarsjóðs yfir árabilið 1708-1716.
Nánar um mynd 3
Algengt er að teikningar af einkennisdýri lands séu notaðar í skjaldarmerki. Fyrsta skjaldarmerki Íslands var þorskur. En á dögum sjálfstæðisbaráttunnar var farið að huga að nýju skjaldarmerki og með heimastjórninni fékk Ísland nýtt skjaldarmerki þar sem fálkinn var einkennisdýrið. Og byggir það á hinni miklu sögu fálkaútflutnings frá landinu öldum saman.
Með konungsúrskurði 3. oktober 1903 var ákveðið að skjaldarmerki Íslands mætti vera hvítur íslenskur fálki. Skyldi fálkinn sitja og snúa til vinstri. Ráðuneyti Íslands í Kaupmannahöfn lét teikna merkið eftir þessari lýsingu. Alberti Íslandsmálaráðherra lagði svo tillöguna fyrir Kristján 9. danakonung sem samþykkti hana 11. desember 1903. Fálkinn var skjaldarmerki Íslands 1904-1918.
Lögun bláa feldsins sýnir hvar fálkinn var staðsettur í skjaldarmerki danska konungsins, þ.e. neðst til vinstri.
ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin. Forestillings-og resoluationsprotokol 1903.
Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011