Í lok 19. aldar fór verslunarfrelsi á Íslandi að aukast og þátttaka Íslendinga í verslun á landinu. Fleiri íslenskir kaupmenn fóru að koma fram á sjónarsviðið og sömuleiðis pöntunarfélög og síðar kaupfélög.
Kaupfélag verkamanna í Reykjavík var stofnað 29. ágúst 1915. Tilgangur félagsins var að alþýða manna yrði sjálfstæð í verslunarefnum. Þessu átti m.a. að ná með því að sporna við skuldaverslun, versla sameiginlega fyrir félagsmenn, bæta innlenda vöru og fá innflutta gagnlega og vandaða vöru og stuðla að samvinnu allra kaupfélaga í landinu.
Kaupfélag Reykjavíkur var formlega stofnað í Eimskipafélagshúsinu 12. september 1931. Undirbúningur var þó hafinn nokkru fyrr og víða höfðu kaupfélög verið stofnuð á árunum á undan. Á undirbúningsfundi fyrir stofnunina þann 7. sept. 1931 mættu um 200 manns þannig að mikill áhugi var á stofnun þess.
Kaupfélag Reykjavíkur seldi eingöngu gegn staðgreiðslu. Stofngjald félaga var 100 krónur og mátti greiða það í tvennu lagi. Í frétt í dagblöðum um stofnun félagsins sagði mætti ,,vænta, að íbúar höfuðstaðarins verði ekki á eftir öðrum um áhuga og myndarskap í samvinnu nú, þegar tækifærið gefst, til að ráða bót á verzlunarháttum almenningi til hagbóta.
Kaupfélögin tvö voru í fyrstu aðskilin en haustið 1935 sameinuðust þau um rekstur vefnaðarvöruverslunar að Laugavegi 10, sem síðar fluttist í Alþýðuhúsið við Hverfisgötu. Þá var einnig bætt við búsáhaldadeild. Verslunin sprengdi fljótlega húsnæðið utan af sér.
Í fyrstu voru matvörudeildir gegnum pöntunarfélag, þar sem fólk þurfti að panta og staðgreiða vörur fyrirfram og fólst hagkvæmnin í sameiginlegum innkaupum í meira magni. Pöntunarfélag verkamanna í Reykjavík var stofnað í nóvember 1934 og óx hratt. Árið 1937 var það komið með þrjár sölubúðir. Sölubúð félagsins að Skólavörðustíg 12 var talin einhver sú stærsta, hagkvæmasta og fullkomnasta, sem til er í Reykjavík á þessum tíma. Í Samvinnunni er lýsing á henni:
„Allt er miðað við, að búðin verði sem þægilegust, bæði fyrir viðskiptamenn og afgreiðslufólk, en jafnframt smekkleg. Búðin er mjög rúmgóð og björt. Búðarborðið er lágt, og er rimlahilla í því að framan, þar sem viðskiptamennirnir geta lagt á pakka. Eru að því mikil þægindi. Skammt er frá búðarborðinu að hillunum, sem ekki eru hærri en það, að afgreiðslumaðurinn nær af gólfinu í hæstu hillu. Þetta hvortveggja er því til mikils hægðarauka við afgreiðsluna. Hver hluti af hillunum er gerður fyrir sérstakar vörutegundir, og verður regla og skipulag allt í búðinni sökum þessa betra en almennt gerist. Þá eru engar vörur viktaðar sundur í búðinni, heldur er það gert í geymslunni inn af búðinni. Þar er hveiti, mjöl, sykur o. fl. viktað sundur í smápoka, 1, 2, 3, 5 eða 10 kg. Pokarnir eru síðan settir á vagna, sem ekið er fram í búðina, og eru þeir settir undir hillurnar. Vörurnar eru því alltaf til í hæfilegum skömmtum, eins og hver kaupandi óskar eftir. Þetta fyrirkomulag sparar mjög mikið tíma og vinnukraft og eykur þægindi bæði fyrir afgreiðslufólkið og viðskiptamennina. Afgreiðslan gengur fljótar, og ösin verður minni í búðinni.“
(http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=291439)
Þann 6. ágúst 1937 sameinuðust síðan Kaupfélag Reykjavíkur, Pöntunarfélag verkamanna og nokkur önnur félög í Hafnarfirði og suður með sjó í eitt félag sem kallað var Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis (KRON). Það varð fljótt öflugt enda naut það góðs af kvótareglum sem settar voru í sambandi við innflutningshöft. Stofnsetti það þegar allmargar sölubúðir í Reykjavík og nágrenni. Elsta búð félagsins var matvörubúð á Skólavörðustig 12 en árið 1940 voru verslanir félagsins orðnar tíu í Reykjavík. Á Grettisgötu 46 og Vesturgötu 33 voru matvörubúðir, á Vesturgötu 16 var kjötbúð, í Alþýðuhúsinu vefnaðarvörubúð og í Bankastræti 12 var bæði bakarí og brauðsala. Í Hafnarfirði var matvöru-, búsáhalda- og vefnaðarvörubúð að Strandgötu 28 og matvörubúð að Selvogsgötu 7. Í Keflavík og Sandgerði voru pöntunardeildir.
KRON starfaði fram til um 1990. Ekki er vitað hvort skjalasafn þess hefur varðveist og myndi Borgarskjalasafn gjarnan vilja fá sendar upplýsingar þar um. Í nokkrum einkaskjalasöfnum eru skjöl sem tengjast KRON og má sjá dæmi um þau hér.
Texti: Svanhildur Bogadóttir, Gréta Björg Sörensdóttir og Bergþóra Annasdóttir.
Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011