Nýlega hélt Verslunin Rangá upp á 80 ára afmæli sitt, en hún er ein elsta starfandi hverfisverslun borgarinnar.
Verslunin Rangá var stofnuð af Jóni Jónssyni frá Ekru á Rangárvöllum 1. nóvember 1931. Ekra er á milli Rangánna og þaðan er nafn verslunarinnar komið. Rangá var fyrst á Hverfisgötu 71 en flutti árið 1948 að Skipasundi 56 og var fyrsta verslunin í Langholtshverfi. Þau Agnar Árnason og Sigrún Magnúsdóttir, keyptu verslunina 1. nóvember 1971. Árið 1991 sameinast hún við Kjartansbúð í Efstasundi sem þau höfðu keypt árið 1984 og rekið frá þeim tíma. Frá árinu 1991 rak Agnar Árnason og eiginkona hans verslunina og tók dóttir þeirra síðar við rekstrinum.
Rangá er hverfisbúð í orðsins fyllstu merkingu og hefur oft verið líkt við gömlu kaupfélögin úti á landi þar sem hægt var að fá allt milli himins og jarðar. Þar fæst allt milli himins og jarðar svo sem leikföng, gjafavara auk matvöru og nýlenduvöru.
Borgarskjalasafn varðveitir fylgiskjöl verslunarinnar frá elstu árum hennar.
Texti: Svanhildur Bogadóttir og Gunnar Björnsson.
Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011