• Haraldarbúð. Skjalasafn Sveinbjörns Karls Árnasonar, nr. E-53 sem varðveitt er á Borgarskjalasafni Reykjavíkur.
  • Ljósmyndir af útstillingum í Haraldarbúð. Skjalasafn Sveinbjörns Karls Árnasonar, nr. E-53 sem varðveitt er á Borgarskjalasafni Reykjavíkur.
  • Ljósmyndir af útstillingum í Haraldarbúð. Skjalasafn Sveinbjörns Karls Árnasonar, nr. E-53 sem varðveitt er á Borgarskjalasafni Reykjavíkur.
  • Ljósmyndir af útstillingum í Haraldarbúð. Skjalasafn Sveinbjörns Karls Árnasonar, nr. E-53 sem varðveitt er á Borgarskjalasafni Reykjavíkur.
  • Ljósmyndir af útstillingum í Haraldarbúð. Skjalasafn Sveinbjörns Karls Árnasonar, nr. E-53 sem varðveitt er á Borgarskjalasafni Reykjavíkur.

Haraldarbúð var stofnuð árið 1915 og starfaði óslitið til ársins 1960. Hún þótti ein glæsilegasta verslun borgarinnar. Verslunin var deildarskipt og með mikið vöruúrval. Í herradeild hennar fengust karlmannaföt, buxur, drengjaföt, frakkar, hattar og fleira og í dömudeild meðal annars kvenkápur, kjólar og pils. Í kvendeildinni Skemmunni voru á boðstólum kvenundirföt, peysur og sokkar og ýmislegt smálegt eins og snyrtivörur. Þá voru seldar baðmullarvörur, kjólaefni og önnur efni í ströngum, meðal annars gardínuefni. Gólfteppi og sængurfatnaður fengust í einni deildinni.

Í uppvexti mínum heyrði ég oft rætt um Haraldarbúð og var lýsingin oft heillandi. Heimur sem ég náði ekki að sjá en gat séð fyrir mér í huganum. Við undirbúning sýningar á Borgarskjalasafni opnaði ég öskju og skyndilega sá ég ljósmyndir af verslun sem var jafnvel glæsilegri en ég hafði ímyndað mér af frásögnunum í æsku. Þetta varð til þess að ég sló á þráðinn til tveggja kvenna og spurði þær um minningar þeirra af Haraldarbúð.

Ég ræddi við tvær konur komnar yfir sjötugt um verslunina og urðu dreymnar á svipinn þegar þær rifjuðu upp minningar sínar af versluninni.

„Með Haraldarbúð, ég var send þangað, að kaupa. Ég man að ég stóð þarna fyrir utan, að reyna að ná í sokka, það var búið að auglýsa það. Þá stóð maður í röð. Þetta voru bómullarsokkar sem strax fóru í sundur. Annað fékkst nú ekki. Þetta var rétt eftir stríð. Þetta var líklega 1948-49,“ segir Guðrún og heldur áfram.

„Verslunin var ekki stór. Fyrir miðju, þar var stórt afgreiðsluborð. Það var náttúrulega kona sem var að afgreiða; margar konur að afgreiða. Afgreiðslukonurnar voru allar í heimasaumuðum kjólum Svo fannst mér alveg frábært þegar ég var krakki að það var rör, beint fyrir aftan konuna sem var að afgreiða. Ég man ekki eftir neinni búð sem hafði þetta svona nema Haraldarbúð. Það var loftrör, sem mér fannst algjör snilld. Konan skrifaði nótu og maður lét hana hafa peninga. Þetta var svona hólkur, svona 5 cm á breidd. Ef maður var með seðil eða túkalla eða eitthvað, þá var það sett inn í og nótan. Á nótuna var skrifað hvað maður var að kaupa. Nótunni var stungið inn í og peningunum og svo ýtti hún sveif niður og þá heyrði maður hvernig þetta skrallaðist upp rörið. Þetta fór upp á aðra hæð í hylkinu. Hylkið var svona aflangt. Það var op á því og svo lok sett fyrir. Ég held að þetta hafi verið úr kopar eða einhverju fíneríi. Svo var kassadama upp sem tók nótuna og setti afganginn í þetta og svo kom þetta niður.“

Margrét tekur við og lýsir versluninni:

„Þetta var ein af betri búðunum í bænum þegar ég var krakki. Það fékkst þarna tvinni, efni og einhver fatnaður. Það voru bæði herra og dömudeild. Fyrir dömur var mjög mikið af efnum, því fólk saumaði svo mikið svo mikið sjálft. Ég held að karlmenn hafi getað látið taka mál af sér og sauma á sig föt.

Þá voru fínar og vandaðar búðir í miðbænum, Það var Edinborg, Brandsverslun, og svona þessa búðir. Jacobsen í Austurstræti. Haraldarbúð var virt verslun og ekki dýrari en aðrar.“

Í skjalasafni Sveinbjörns Karls Árnasonar, nr. E-53 eru varðveitt skjöl um Haraldarbúð, meðal annars þær ljósmyndir af versluninni sem hér birtast. Skjalasafnið er varðveitt á Borgarskjalasafni Reykjavíkur og það var dóttir Sveinbjörns sem færði safninu það til varðveislu.

Minningar eru mikilvægar en það er einnig mikilvægt að varðveita skjöl sem styðja við þær. Borgarskjalasafn tekur gjarnan við skjölum verslana í Reykjavík en það geta verið til dæmis vörulistar, bréf, pantanir, ljósmyndir, bókhald, bæklingar og fleira. Safnið vill hefur einnig áhuga á að fá að skanna ljósmyndir af verslunum í Reykjavík, sem eru í einkaeigu.

Höfundur: Svanhildur Bogadóttir.

Heimildir og nánari upplýsingar:
  1. Tvö viðtöl við ónafngreindar eldri konur uppaldar í Reykjavík. Nöfnum breytt.
  2. Freyja Jónsdóttir, grein í Morgunblaðinu um Austurstræti 22, 1. Apríl 2003, sótt af http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=722787.
  3. Linda Björk Ólafsdóttir. 2009. „Lítill gluggi til heimsins. Ágrip af sögu Haraldarbúðar í Reykjavík 1915-1960“. Ritgerð til B.A. prófs í sagnfræði við Háskóla Íslands. Óútgefin. Sótt af http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=722787.
  4. Skrá yfir einkaskjalasafn Sveinbjarnar Karls Árnasonar, nr. 53. Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Sótt af http://www.borgarskjalasafn.is/Portaldata/21/Resources/borgarskjalasafn/skjalaskra/einstaklingar/Sveinbjorn_Karl_Arnason_(53).pdf.

Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011