Upp úr aldamótunum 1900 tók Reykjavíkurbær að stækka hraðar en áður hafði þekkst. Bændaþjóðfélagið ásamt vöruskiptaverslun tók að víkja fyrir borgarsamfélagi þar sem peningar urðu í auknum mæli notaðir við verslun. Þá höfðu breyttir samgönguhættir, þ.e. brýr, strandferðaskip og vagnvegir einnig áhrif á að Reykjavík styrktist sem miðstöð verslunar.
Í kjölfar þess lifnaði yfir verslunarmenningu bæjarins. Verslanir urðu meira deildaskiptar í anda Magasin du Nord í Kaupmannahöfn. Ein þessara verslana var Thomsens Magasin. Um 1890 var versluninni skipt í tvær deildir og eftir 1902 óx verslunin óðfluga. Á blómatíma Thomsens Magasins skiptist það í fjölda deilda: basardeild, ferðamannadeild, húsgagnadeild, járn- og leirvörudeild, karlmannafatadeild, kvenfata- og vefnaðarvörudeild, kvenhattadeild, kjallaradeild, matvörudeild, nýlenduvörudeild, pakkhúsdeild, skófatnaðardeild, strandferðadeild, vindladeild og skrifstofudeild.
Á vegum verslunarinnar var einnig rekin kjólasaumastofa, gosdrykkjaverksmiðja, skraddaraverkstæði, trésmíðaverkstæði, sláturhús, svínabú, reykingarofn, niðursuða, vindlaverksmiðja, brjóstsykurverksmiðja, veitinga- og biljarðstofa. Árið 1902 var verslunin með fimm verslunarhús í Hafnarstræti og eitt í Kolasundi. Þá voru þeir einnig með útibú og fiskverkun á Akranesi og skrifstofu og afgreiðslu í Kaupmannahöfn.
Thomsen Magasin var í virkri samkeppni og hugsaði upp ýmsar leiðir til að auglýsa sig. Meðal annars dreifði verslunin litríkum auglýsingum og vörulistum í svipuðum anda og stórverslanir í dag. Eins og gefur að skilja var vöruúrvalið hreint ævintýralegt og í auglýsingu frá versluninni má meðal annars sjá auglýst mikið úrval af sígarettum og vindlum, allskonar búsáhöldum og hverskyns bökunar- og nýlenduvörum.
Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011