• Kröfubréf forsvarsmanna fyrirtækja í Kópavogi 8. janúar 1972. Héraðsskjalasafn Kópavogs. Afh. 7/2007 Hulda Finnbogadóttir. A/6 12B.
  • Unnið að framkvæmdum í Gjánni 1972. Héraðsskjalasafn Kópavogs. Ljósmyndari óþekktur.

Með vaxandi byggð á höfuðborgarsvæðinu upp úr miðri 20. öld jókst mjög umferð milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur með tilheyrandi auknu álagi á umferðarmannvirki. Fyrirtæki í Kópavogi nutu góðs af þessari umferð og miðuðu starfsemi sína við hana. En um 1970 annaði gamli Hafnarfjarðarvegurinn varla lengur þessari miklu umferð auk þess voru miklar tafir efst á Kópavogshálsinum því þar var lögregluvakt alla daga til að aðstoða gangandi vegfarendur við að komast yfir veginn. Því var ákveðið var að ráðast í gerð Gjárinnar svonefndu, og kljúfa þar með á milli vestur- og austurbæjar Kópavogs og byggja brýr yfir fyrir innanbæjarumferð. Hún var svo formlega tekin í notkun á gamlársdag 1971.

Gjáin skerti tengsl Kópavogs við umferðina um Hafnarfjarðarveginn og því undu forsvarsmenn fyrirtækja í Kópavogi illa, sendu þeir því bæjarráði Kópavogs kröfubréf rúmri viku eftir opnun vegarins, 8. janúar 1972. Þar fóru þeir fram á betri tengingu gatnakerfis Kópavogs við nýja veginn, í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar frá 23. nóvember 1971. Bæjarráð fól umferðarnefnd að svara kröfunum á fundi 19. janúar sem hún svo gerði með bréfi dags. 29. janúar 1971. Umferðarnefnd hafnaði kröfunum og sagði að „þau sjónarmið og þeir hagsmunir, sem eru undirrót kröfubréfsins“ væru „að mestu, eða jafnvel öllu, leyti ímynduð.“ Ennfremur lýsti nefndin sig tilbúna „að kanna og meta tillögur, sem fram kynnu að koma í því skyni að þjóna viðskiptahagsmunum, án þess að fórna umferðaröryggi, sem ávallt verður að vera í fyrirrúmi.“

Fulltrúar þessara fyrirtækja í Kópavogi undirrituðu kröfubréfið:

  1. Byggingaverslun Kópavogs
  2. Smáragarður hf.
  3. Pétur Maack Þorsteinsson sf.
  4. Bílasprautun & Réttingar
  5. Trésmiðja Þorkels Skúlasonar
  6. Málning hf.
  7. Ora - Kjöt & Rengi hf.
  8. Efnagerðin Valur
  9. Últíma hf.
  10. Sendibílastöð Kópavogs hf.
  11. Blikksmiðjan Vogur hf.
  12. Bílaverkstæði Elías Kristjánsson
  13. Trésmiðja Hákonar og Kristjáns sf.
  14. Hurðaiðjan sf.
  15. Úlfar Guðjónsson hf.
  16. Húsgagnahúsið hf.
  17. Skóverslun Kópavogs
  18. Veda - Bóka & ritfangaverslun Kópavogs
  19. Blómahöllin
  20. Smurstöð Kristjáns Ólafssonar
  21. Verzlunin Álfhóll
  22. Útvegsbanki Íslands Kópavogi
  23. Trésmíðavinnustofa Daða Guðbrandssonar
  1. Fasi sf.
  2. Bifreiðaverkstæði Hreins & Páls
  3. Kópavogs apótek (með fyrirvara)
  4. Verksmiðjan Dúna
  5. Á. Guðmundsson hf.
  6. Byggingamiðstöðin hf.
  7. Bifreiða- og vélaverkstæði Kópavogs sf.
  8. Litlaprent
  9. Skemman sf. Bifreiðaverkstæði
  10. Trjástofninn hf.
  11. Trésmiðja Úlfars Guðmundssonar
  12. Öl og Gos hf.
  13. Rudens Kaffi
  14. Húsgagnavinnustofa Óla Þorlaugssonar
  15. Stíló-Húsgögn hf.
  16. Húsgagnavinnustofa Ragnars Haraldssonar
  17. Vélsmiðja Heiðars hf.
  18. Sigurður Elíasson hf.
  19. Tréver hf.
  20. Tékkneska bifreiðaumboðið á Íslandi hf.
  21. R. Jóhannesson hf.
  22. Skodaverkstæðið hf.
  23. Verzlunin Auðbrekka

Umferðin óx jafnt og þétt, heil byggðalög mynduðust í Garðahreppi, Hafnarfjörður og Suðurnesin urðu stöðugt mannfleiri, herstöðin á Miðnesheiði og stóriðjan, sem var í uppsiglingu í Straumsvík, allt þetta kom á gamla veginn, ásamt stöðugt vaxandi bílaeign landsmanna. Tvöfaldur lögregluvörður á veginum í Kópavogi tafði mjög umferðina og til mála kom að setja upp umferðaljós. Þá kom „Gjáin“ – fyrst á pappírinn – svo í framkvæmd. Ýmsir höfðu velt því fyrir sér, hvort ekki væri rétt að ljúka fyrst við Reykjanesbrautina, sem byrjað er á og koma skal hér fyrir austan Kópavogsbyggðina og sjá hvað hún létti á gamla veginum, en þær raddir voru ekki ráðandi, svo „Gjáin“ var grafin og á gamlársdag í vetur var hún opnuð. Umferðin um hana er greið og ber fólki saman um að allt annað sé nú og greiðara að komast á milli og gildir þá einu hvort það eru hafnfirzkir verkamenn eða aðallinn í Arnarnesi, sjómenn af Suðurnesjum eða hermenn af vellinum og engin lögregla í Kópavogi til að tefja umferðina. – En hvað um okkur Kópavogsbúa? E.t.v. sýnir það bezt hver búhnykkur er að „Gjánni“ að viðskipti hafa stórlega dregizt saman hjá fjölda fyrirtækja, sem setzt höfðu hér að og það svo að sum þeirra eru farin héðan og önnur hafa við orð að fara. Almenningur átti í vandræðum með að komast á bílum heim til sín í fyrstu eftir umferðarbreytinguna og þeim sem vilja sækja okkur heim eða sækja hingað þjónustu, er gert illmögulegt að rata í og úr bænum.

Þórður Jóhann Magnússon: „Gjáin í Kópavogi“ Morgunblaðið 30. júní 1972. Bls. 19.

Heimildir:
  1. Héraðsskjalasafn Kópavogs. Afh. 7/2007 Hulda Finnbogadóttir. A/6 12B Afrit umsagnar umferðanefndar Kópavogs 29. janúar 1972 til bæjarráðs vegna kröfubréfs fyrirtækja í Kópavogi 8. janúar 1972. Með fylgir afrit kröfubréfsins.
  2. Fundargerð 179. fundar bæjarstjórnar Kópavogs 23. nóvember 1971.
  3. Sigurður Grétar Guðmundsson: Þinghóll. Stiklað á stóru í sögu félagsheimilis og félagsstarfs innan veggja og utan. Kópavogi, 1995. Bls. 46-49.
  4. Þórður Jóhann Magnússon: „Gjáin í Kópavogi“ Morgunblaðið 30. júní 1972. Bls. 19.

Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011