• U-290: Einn af bílum KHB, af gerðinni Henchel. Kaupfélagið keypti bílinn og fleiri af þessari gerð er bílakostur fyrirtækisins var endurnýjaður seint á 6. áratugnum. Bíllinn reyndist afar vel á torfærum vegum og kallaði Sigurður Guttormsson bílstjóri hann jeppann vegna þess hve lipur hann var og komst víða. Bílinn var mikill burðarjálkur. Var á stundum mikið hlass á pallinum og háfermi eins og myndin sýnir. Maðurinn efst á timburfarminum er Sigurður bílstjóri.
  • Chervolet árgerð 1947: Olíubíll frá Kaupfélagi Héraðsbúa staddur á bænum Gagnstöð í Hjaltastaðaþinghá. Bíllinn var fyrsta sérsmíðaða bifreiðin til eldsneytisflutninga sem KHB eignaðist.
  • Ferðir yfir Fagradal voru á vetrum miklar slarkferðir. Stundum var ekki komið við bílum og var þá gripið til þarfasta þjónsins og vörur fluttar á sleða. Myndin sýnir kaupfélagsmenn við umskipun neðarlega á Fagradal.
  • U-290: IFA bifreið Gunnars Stefánssonar á Reyðarfirði í flutningum fyrir KHB. Hlassið var ekki alltaf þungt en gat engu að síður verið vandmeðfarið. Hér er verið að flytja ullarfarm til Akureyrar þar sem verksmiðjur Sambandsins framleiddu fatnað fyrir landslýð.

Árið 2009 hætti Kaupfélag Héraðsbúa rekstri og voru þá 100 ár frá stofnun þess. KHB var upphaflega með aðal umsvif sín á Reyðarfirði en hóf jafnframt, nokkru fyrir miðja síðustu öld, fjölþættan rekstur á Egilsstöðum. Hundrað ára sögu er erfitt að gera skil í stuttu máli. Hér hefur því verið valin sú leið að velja til umfjöllunar bílaeign félagsins, en það eignaðist snemma öflugan bílaflota, enda þjónustusvæðið víðlent og yfir fjallvegi að fara. Sjá má í skjölum félagsins að þegar á árinu 1914 kom til álita að kaupa svokallaða sjálfrennireið. Ekki var þó af bílakaupum í það sinn. Á hálfrar aldar afmæli félagsins kom út saga þess og var Kristján Ólason, klæðskeri á Reyðarfirði, fenginn til að taka myndir vegna útgáfunnar. Er hann höfundur myndanna sem hér birtast.





Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011