Í skjölum sem bárust Héraðsskjalasafni Austfirðinga frá séra Sigmari I. Torfasyni á Skeggjastöðum voru m.a. gögn frá Haraldi Guðmundssyni á Þorvaldsstöðum í Skeggjastaðahreppi varðandi skömmtun á ýmsum nauðsynjum frá því 1939 fram til ársins 1960. Það er erfitt fyrir okkur sem fyllumst valkvíða fyrir framan hillur sem svigna undan fjölbreyttu úrvali matvæla að setja okkur í spor þess fólks sem bjó við vöruskort á stríðstímum og eftirstríðsárum.
Flest það sem heimilin þörfnuðust til fæðis og klæða var þá aðeins hægt að kaupa með því að framvísa skömmtunarseðlum sem svokallaðir úthlutunarstjórar, sem oftast voru bæjarstjórar eða oddvitar, fengu afgreidda frá Skömmtunarskrifstofu ríkisins. Ef marka má það umfang skjala sem oddvitanum í hinum fámenna Skeggjastaðahreppi barst hefur skrifbáknið verið mikið á landsvísu.
Haraldur á Þorvaldsstöðum er vandvirkur og færir úthlutanir og undanþágur skilvíslega til bókar enda gert að senda skilagrein að loknu hverju úthlutunartímabili. Stundum eru aukaúthlutanir vegna fyrirliggjandi stór-matargerðar. Þann 9. júní 1942 er, t.d. heimilað að veita hverju heimili aukalega 3 kg af sykri til sultugerðar. Sama ár er gefin út reglugerð þar sem leyfð er aukaskömmtun á rúgmjöli til sláturgerðar og er skammturinn 2 kg rúgmjöl í hvert dilkaslátur, 3 kg í slátur af fullorðnu fé og 16 kg í hvert stórgripaslátur. Þá fá ófrískar konur og fólk sem er að stofna heimili auka skömmtunarseðla til kaupa á vefnaðarvöru og stundum úthlutar Haraldur seðlum fyrir aukaskammti af kaffi eða sykri vegna risnu eða gestanauðar.
Í kerfinu var einnig tekið tillit til dagamuns vegna ferminga og árið 1949 er hverju fermingarbarni úthlutað aukalega, 5 kg af sykri og 4 pökkum af kaffi, auk þess að fá sérstaka skómiða. Þess má geta að til þess að hafa nú allt á hreinu var sóknarprestum gert að tilkynna nöfn og heimili fermingarbarna eins og sjá má á nafnalistanum sem hér fylgir með frá séra Sigmari.
Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011