Árið 1961 var opnuð Varahlutaverslun Gunnars Gunnarssonar á Egilsstöðum. Gunnar var þá nýfluttur í þorpið en hafði um árabil séð um viðhald og viðgerðir og gætt rafstöðvar á Eiðum. Fyrsta árið sem hann var búsettur á Egilsstöðum vann hann á bifreiðaverkstæði og fékk þá að kynnast því hve langan tíma gat tekið að fá varahluti. Varð það til þess að hann ákvað að koma á fót verslun sem hefði á boðstólum slíkan varning og bætti síðar við ýmsu sem kom að sportveiði.
Yfir starfsemina byggði hann lítinn skúr og var hann staðsettur við þjóðveginn þar sem hann lá í gegnum þorpið. Verslunarhús Gunnars lét ekki mikið yfir sér en varð fljótlega vinsæll viðkomustaður, enda kaupmaður gestrisinn og lét vel að segja sögur. Var þar oft þröngt á þingi.
Um þær mundir sem Gunnar opnaði verslun sína sendu Rússar, fyrstir þjóða, mann út í geiminn og þar sem kaupmaður var dálítið hallur til vinstri varð honum tíðrætt um þetta afrek við viðskiptavini sína og hélt þá mjög á lofti nafni geimfarans Yuri Gagaríns. Þetta varð til þess að farið var að kalla hann Gagarín sem var síðan stytt í Gaggi og fljótlega var nafnið Gunnar aðeins til á pappírunum. Í kjölfarið var svo farið að nefna verslunina Gaggabúð eða Gagrínsmagasín.
Skúrinn sem hýsti Gaggamagasín stóð í um áratug. Á sínum tíma hafði Gunnari verið úthlutað lóðinni og var hann um tíma meðeigandi í stóru verslunarhúsi sem þar reis á vegum Kristjáns Kristjánssonar í Verðlistanum. Í því húsi varð þó aldrei verslað með klæðnað eða varahluti, heldur var það tekið í þjónustu Mammóns og hefur frá árinu 1970 hýst Búnaðarbanka sem síðar varð Kaupþing og nú Arionbanki.
Gunnar flutti verslun sína að Selási 1. Hann hét áfram Gaggi í munni bæjarbúa og sá fram á 9. áratuginn, þeim og íbúum nágrannasveitarfélaga, fyrir varahlutum, verkfærum og ýmslu sem laut að viðhaldi véla og verkfæra. Gunnar lést 11. september 1994 og var þá fyrir nokkru sestur í helgan stein.
Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011