• Verslunarhús Kaupfélags Ísfirðinga á horni Austurvegar og Hafnarstrætis á Ísafirði.
  • Úr verslun Kaupfélags Ísfirðinga á sjöunda áratug 20. aldar.
Verslun Kaupfélags Ísfirðinga á Ísafirði 1920 - 1995

Kaupfélag Ísfirðinga var stofnað 30. apríl 1920. Félagið hóf starfsemi í smáum stíl með matvörubúð í Félagsbakaríinu við Silfurgötu og þar var sölubúð félagsins til ársins 1927 en var þá flutt í stærra og betra húsnæði að Hafnarstræti 1. Fyrst um sinn var útibú þó rekið áfram í gömlu búðinni. Sumarið 1929 færði félagið enn út kvíarnar og setti upp útibú í efri hluta kaupstaðarins, í Hrannargötu 8, þar sem verslun Leós Eyjólfssonar hafði verið til húsa. Starfaði þetta útibú fram til ársins 1936.

Umsvif félagsins jukust talsvert á þessum árum og fljótlega þótti sýnt að húsakynnin að Hafnarstræti 1 væru of lítil. Var þá hafinn undirbúningur að byggingu sérstaks verslunarhúss fyrir kaupfélagið og fékkst byggingarlóð á besta stað í bænum, á horni Austurvegar og Hafnarstrætis. Framkvæmdir hófust vorið 1930 og í desember 1931 flutti kaupfélagið aðalverslun sína í nýja húsið. Var það 300 fermetrar að grunnfleti, þrjár hæðir og kjallari. Á neðstu hæðinni voru matvöru-, búsáhalda-, vefnaðarvöru- og kjötbúð. Á annarri hæð hússins voru skrifstofur félagsins og á efstu hæðinni voru íbúðir.

Í maí 1958 opnaði Kaupfélag Ísfirðinga kjörbúð á Ísafirði sem var hin fyrsta sinnar tegundar á Vestfjörðum. Var hún í norðurálmu verslunarhússins þar sem áður höfðu verið vörugeymsla og mjólkurbúð. Gólfflötur kjörbúðarinnar var 110 fermetrar en auk þess voru kjötafgreiðsla og frystiklefi á sömu hæð. Teiknistofa SÍS teiknaði búðina og skipulagði, en alla umsjón og forgöngu um verkið hafði Jóhann T. Bjarnason, þáverandi kaupfélagsstjóri á Ísafirði.

Rekstur Kaupfélags Ísfirðinga þyngdist mjög þegar kom fram á níunda áratug 20. aldar og árið 1995 hætti félagið starfsemi. Verslunarkeðjan Samkaup tók þá verslunarhúsið við Hafnarstræti og Austurveg á leigu og opnaði þar matvöruverslun.

Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011