Ísleifur Gíslason kaupmaður rak verslun á Sauðárkróki lengi eða frá 1903-1960. Ekki var þó verslunarreksturinn í stórum stíl. Hann var grandvar heiðursmaður í öllum viðskiptum, keypti slatta af vörum hér og þar, stundum afganga af eldri vörusendingum. Þá seldi hann steinolíu á brúsum sem ýmsir nýttu sér. Fáar verslanir munu hafa auglýst meira en verslun Ísleifs Gíslasonar. Ísleifur var landskunnur hagyrðingur og var sífellt með vísur á hraðbergi, sem hann orti jafnóðum upp úr sér og vörunar auglýsti hann gjarnan með vísu.
Með Esjunni að sunnan, sem oft er hér á ferð,
ég eignaðist vinnugalla, af mismunandi gerð,
í gulum lit og bláum, hann gjörður er af snilli
Á Golíata og krakka og stæðir þar á milli.
Og mjólkurfötur gleraðar, sem gleðja hverja kú,
og girnilega skaftpotta, sem líka margri frú.
Og enn má nefna áhald það - hér ætti ég að stoppa -
sem ýmsir kalla náttpotta, en sumir bara koppa.
Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011