• Hugrún og Sigríður móðir hennar í Vífilsdal.
  • Taska í eigu Hugrúnar keypt í Verslun Aðalsteins Baldvinssonar í Brautarholti.

Verslunarferðir úr Vífilsdal voru sjaldan þegar ég var krakki. Pabbi fór yfirleitt einn með kerruhest og kom til baka með olíutunnu, einn kassa að nauðsynjavöru í eldhús; kakó, lyftiduft og þessháttar. Rúsínur komu í kössum, kringlur, hveiti og sykur í pokum.

Örsjaldan fór mamma í vínrauðu kápuna sína og settist á bak Sörla og fór með í Búðardal eða verslunina í Brautarholti. Og það er einmitt búðin sem er mér minnisstæð. Ég og systir mín höfðum farið í Búðardal með mömmu, við áttum að fara í sprautu hjá lækni. Ekki man ég hvernig við fórum, sennilega með Munda á Hóli, en hann var sá eini í Hörðudalnum sem átti bíl. Þá komum við í bókabúð Magnúsar Rögnvaldssonar sem var pínulítil. En ég man ennþá lyktina þar inni af bókunum. Þar fengum við glansmyndir og dúkkulísubækur.

Svo var komið við í Brautarholti á heimleiðinni. Ég man þegar ég kom þar eins og ég hafi verið þar í gær. Það var lykt af súkkulaði og einhverju öðru góðu. Það voru glerskápar á veggjum fyrir innan búðarborðið og í þeim voru alls kyns gersemi. Bollastell fyrir dúkkur og eldavél með pottum og pönnum fangaði hugann hjá mér. Ég fékk svo þessa eldavél í afmælisgjöf, þvílík dásemd.

Þarna var vefnaðarvara í ströngum, olíulampar, glös og kveikir í þá, bolla- og matarstell. Ég man líka eftir súkkulaði í skrautlegum bréfum. Eitt með banönum utan á, annað með appelsínum. Brjóstsykur allavega á litinn. Þarna voru niðursoðnir ávextir, tvinni í mörgum litum, úlpur og margt fleira.

Aðalsteinn kaupmaður bauð okkur brjóstsykur úr krukku sem stóð á borðinu. Mamma keypti handa okkur sandfötur sem voru úr járni með myndum af krökkum í baðfötum að moka sand á sólarströnd. Þetta var fyrsta verslunarferðin mín.

Hugrún Otkatla Hjartardóttir, héraðsbókavörður í Búðardal.

Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011