• Kista úr búi Sturlaugs í Rauðseyjum.
  • Sturlaugur í Rauðseyjum.

Sturlaugur Einarsson (1795-1871) bjó í Rauðseyjum á Breiðafirði og stundaði umfangsmikla vöruskiptaverslun um miðja 19. öld. Sturlaugur tók við búi af föður sínum Einari Ólafssyni (1748-1837) dannebrogsmanni. Hann var auðugur maður og hafði m.a. hagnast á sölu nauðsynjavöru til bænda í landi í skiptum fyrir sumarafurðir. Við andlát sitt átti hann a.m.k. 14 jarðir auk annarra eigna. Tvær jarðir komu í hluta Sturlaugs, Reynikelda á Skarðsströnd og Kýrunnarstaðir í Hvammssveit.

Alla sína búskapartíð var Sturlaugur leiguliði Skarðsverja í Rauðseyjum þrátt fyrir að eiga tvær jarðir. Enda var staðsetning Rauðseyja, milli lands og verstöðva, grunnurinn að umfangsmikilli vöruskiptaverslun við eyja- og landbændur. Hann verslaði með skreið, þorsk, ýsu, rikling, kjöt, tólg, smjör, sýru og kornvöru. Auk þess verslaði hann eitthvað með brennivín, tóbak, kaffi og sykur.

Bjarneyjar voru ein stærsta verstöð landsins gegnum aldirnar, en eyjarnar voru land- og hlunnindalitlar miðað við fólksfjölda. Bjarneyingum gat Sturlaugur því selt kjöt (salt og reykt), smjör, sýru (mysu) og fleira í skiptum fyrir fiskmeti. Fiskmetinu skipti hann síðan út fyrir kjöt, smjör, sýru og fleira við bændur í landi. Það sem gekk útaf afurðum eftir vöruskiptin skipti hann síðan á fyrir kornmeti og munaðarvöru við danska lausakaupmenn sem komu í Flatey.

Ekki safnaði Sturlaugur jarðagóssi eins og margir auðmenn á þessum tíma. Heldur varðveitti hann auð sinn í peningum, sauðfé og nauðsynjavöru. Sagt er að peningar þeir sem hann lét eftir sig hafi verið vegnir en ekki taldir.

Sturlaugur kvæntist aldrei en átti einn son, Guðbrand. Að Sturlaugi látnum fékk Þórdís ráðskona hans Kýrunnarstaði til eignar, en Reynikelda og aðrar eignir féllu í hlut Guðbrandar.

Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011