• Mynd frá 1910. Verslun Jónanna. Lengst til vinstri er íbúðarhús Jóns frá Bæ Kaupangur frá 1878. Því næst er verslunin og til hægri við hana er pakkhús Thor Jensens frá 1887. Lengst til hægri á myndinni er sláturhús Sláturfélags Suðurlands byggt 1908. Myndin tekin af Miðnesi. Ljósmyndarinn er óþekktur. Myndasafn nr.1064.
  • Sýnishorn af reikningi frá árinu 1912 til Jóns Jónssonar Skiphyl frá verzlun Jóns Björnssonar og co.Einkaskjalasafn nr. 306.

Árið 1907 mynduðu mágarnir Jón Björnsson frá Bæ og Jón Björnsson frá Svarfhóli félag um kaup og rekstur á Langesverslun þeirri er var í Borgarnesi og nefndu það fyrirtæki sitt Jón Björnsson og co. Varð verslun þeirra fljótlega önnur höfuðverslunin í héraðinu ásamt Kaupfélagi Borgfirðinga. Jónarnir voru framfarasinnaðir og tóku upp á ýmsum nýjungum. Meðal annars réðust þeir í byggingu íshúss og ullarþvottastöðvar um miðjan annan áratug síðustu aldar. Ullarþvottastöðin starfaði stutt en íshúsið starfaði lengur og var þar framleiddur ís til að kæla ferskt kjöt og lax.

Upp úr lokum fyrri heimstyrjaldar ákváðu nafnarnir að taka þátt í síldveiðum og keyptu tvo báta, Bifröst og Hermóð sem stunduðu veiðar við Vestfirði og komu sér upp söltunarstöð á Ísafirði. Veiðarnar gengu ágætlega og fór söluverðið hækkandi. Biðu þeir því með að selja en allt í einu varð verðhrun. Leiddi það til að Jón Björnsson og co. varð gjaldþrota árið 1924. Upp úr því stofnuðu Jónarnir hvort sitt fyrirtæki með aðstoð vina og vandamanna. Jón frá Bæ stofnaði Verslunarfélag Borgarfjarðar en Jón frá Svarfhóli stofnaði Verslunarfélagið Borg.

Heimild:
  1. Jón Helgason. Hundrað ár í Borgarnesi. 1967. Bls. 135 og 185-187.
  2. Verslunarsaga Borgarfjarðar norðan Skarðsheiðar. Samantekt Páls Guðbjartssonar í tengslum við verslunarsögusýningu sem var í pakkhúsi hjá Búðarkletti 2004. Bls. 15.
  3. Einkaskjalasafn nr. 295.

Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011