Verzlunin var í daglegu tali kölluð Axelsbúð. Fyrsti verslunardagur var 18. desember 1942. Vöruúrvalið í Axelsbúð var rómað. Var það almannarómur á Akranesi að ef vara fengist ekki í Axelsbúð þá fengist hún hvergi.

Stofnandinn, Axel Sveinbjörnsson, fæddist árið 1904 í Reykjavík en ólst upp hjá frændfólki sínu á Traðarbakka á Akranesi frá níu mánaða aldri. Hann var stýrimaður og skipstjóri á bátum frá Akranesi, en hætti sjómennsku árið 1936 af heilsufarsástæðum og hóf þá störf i verslun Haraldar Böðvarssonar.

Árið 1942 byrjaði Axel sjálfur verslunarrekstur í húsnæði við Hafnarbraut. Húsnæðið var gamalt pakkhús sem hafði verið áfast versluninni Frón. Axel keypti pakkhúsið og flutti það yfir Skagann og hóf rekstur. Við undirbúning rekstursins hitti Axel eiganda verslunarinnar Ellingsen og fékk lánaðar hjá honum vörur að andvirði 11 þúsund króna, með andlit sitt eitt að tryggingu. Á þeim tíma þótti slík trygging duga, og handtak var ígildi undirskriftar.

Eiginkona Axels var Lovísa Jónsdóttir. Lovísa var ennfremur einn fyrsti starfsmaður Axelsbúðar. Nafntogaðastur búðarmanna, fyrir utan þau hjón, mun vera Guðjón Finnbogason. Hann hóf störf í búðinni árið 1943 en gerðist síðar meðeigandi Axels. Guðjón var í Axelsbúð til ársins 1999.

Árið 1950 var verslunin flutt um set, á Suðurgötu 7-9. Þar hafði Verslunin BOCO, sem Bjarni Ólafsson átti og rak ásamt fleirum, verið frá 1927. Axelsbúð var í þessu húsnæði í 55 ár, til 2005 en þá var hún lögð niður.

Sjá einnig grein Sigríðar Víðis Jónsdóttur „Tveggja tommu nippill og ískalt kók“. Hér fyrir neðan er viðtal Þórðar Ólafssonar við Axel Gústafsson, barnabarn stofnandans. Viðtalið var tekið 8. mars 2005.

Viðtal Þórðar Ólafssonar við Axel Gústafsson, fyrri hluti.


Viðtal Þórðar Ólafssonar við Axel Gústafsson, seinni hluti.


Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011