Forsíða Leiðari Um skjaladaginn Dagskrá Getraun Skjalasöfnin Veðurslóðir
  • Þessi mynd er líklegast tekin í flóðinu í mars 1948. Ljósmyndari er Arnold Pétursson en hann starfaði við verslunina Höfn á Selfossi frá 1942, sem Guðmundur tengdafaðir hans stofnaði. Arnold bjó ásamt fjölskyldu sinni fyrst á Stað en byggði árið 1945 hús að Tryggvagötu 4, sem stendur nálægt Ölfusá. Árið 1972 byggðu Arnold og kona hans Kristjana húsið Hrefnutanga sem stendur vestan Ölfusár.
  • Flóðið 1968. Myndin er tekin sunnan við Selfosskirkju. Húsin við árbakkan austanmegin eru Addabúð nærst, Tryggvaskáli, hluti af kaupfélagssmiðjunum, verslunarhús Kaupfélags Árnesinga, nú Ráðhús Árborgar og Landsbankahúsið. Ljósmyndari er Tómas Jónsson.
  • Selfossvegur eftir flóðið 1968. Ísjakar allsstaðar. Ljósmyndari er líklega Gísli Bjarnason.

Flóðin í Ölfusá er ýmist svokölluð vetrar- eða haustflóð. Vetrarflóð verða þegar ís sem hrannast upp í Hvítá, þar sem hún rennur í þrengingum millli Brúnastaða og suðurenda Hestsfjalls, fer í leysingum að vetri til. Haustflóðin, sem eru fátíðari, verða þegar frostakafla gerir á haustin og jörð því vatnsheld. Þá bætast við snjóalög á öllu vatnasviði árinnar úr byggð og upp í afrétt Tungna- og Hrunamanna. Lægð með snöggri hitabreytingu, ofsaregni og sterkum vindi bætist svo við og flóð myndast. Síðsta flóðið í Ölfusá var árið 2006.

Hér eru myndir frá nokkrum flóðum í Ölfusá og viðtalsbútar við séra Sigurð Pálsson vígslubiskup og Brynjólf Gíslason veitingamann í Tryggvaskála út af flóðinu 1968.

Meðan fréttamenn Mbl. töluðu við séra Sigurð Pálsson vígslubiskup í Hraungerði, á tröppum Selfosskirkju síðdegis í gær var ekki laust við að hækkaði í Ölfusá. „Nú er áhlaðandi, eins og sagt er um vaxandi flóð,“ sagði séra Sigurður og benti út í strauminn. Jakarnir dönsuðu léttan ballet í árstraumnum, en að öðru leyti minntu þessar náttúruhamfarir ekki á gleði eða gáska, Ölfusá bergstokkafull er annað en gamanið eitt. Kjallarinn í Selfosskirkju er fullur af jökulvatni, svo að ekki er unnt að komast þangað, en samt má heyra að vatnið bullar og sýður þar niðri, enda skellur hver bylgjan á fætur annarri á kirkjunni.

„Þetta eru mestu flóð frá íslands byggð,“ sagði Brynjólfur er við spurðum um flóðin. Þess hefði áreiðanlega verið getið í annálum, ef flætt hefði hér áður sem nú. Og Þórir landnámsmaður, er reisti bæ sinn hér fyrir neðan í Sandvíkurhreppinum hefur áreiðanlega valið öruggan stað. Nú hefur flætt þar í fyrsta sinn. — Allt hefði sópast í ána, Tryggvaskáli og húsin hér í næsta nágrenni, ef ekki hefði verið hér rétt fyrir ofan gamalt hesthús, sem myndaði eins konar brimbrjót og tók mestu ágjöfina. Hesthúsið er nú að mestu brotið, svo og skemman hér að húsabaki, og bragginn, en norðurgafl hans er horfinn.“

Heimildir:

Norræni skjaladagurinn 13. nóvember 2010