Forsíða Leiðari Um skjaladaginn Dagskrá Getraun Skjalasöfnin Veðurslóðir

Þjóðskjalasafn Íslands


Laugavegi 162, 105 Reykjavík

Þjóðskjalasafn Íslands er með opið hús að Laugavegi 162 í samstarfi við Veðurstofu Íslands sem heldur upp á 90 ára afmæli sitt á þessu ári. Dagskráin fram fer í húsakynnum Þjóðskjalasafns að Laugavegi 162. Þema dagsins er „Veður og loftslag“ undir slagorðinu „Óveður í aðsigi?“. Sjá dagskrá.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur


Grófarhúsi, Tryggvagötu 15, 101 Reykjavík

Félag héraðsskjalavarða á Íslandi verður með opið hús í Borgarskjalasafni Reykjavíkur undir kjörorðinu „Eins og vindurinn blæs…“. Fimmtán héraðsskjalasöfn taka þátt í opna húsinu með einum eða öðrum hætti. Sjá dagskrá.

Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar


Kjarna, Þverholti 2, 270 Mosfellsbær

Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar hefur sett upp sýningu í skjalakassa sem staðsettur er á torginu framan við Bókasafn Mosfellsbæjar. Húsið er opið alla virka daga frá 08:00 - 19:00 og frá 10:00 - 18:00 á laugardögum. Viðfangsefni Héraðsskjalasafns Mosfellsbæjar í ár er „Varmá í Mosfellssveit“, en áður en hverirnir í Reykjahverfi voru virkjaðir rann heitt vatn í ána og var hún notuð á ýmsan máta af Mosfellingum.

Héraðsskjalasafn Akranesskaupstaðar


Dalbraut 1, 300 Akranes

Á Héraðsskjalasafni Akranesskaupstaðar verður opið frá kl 11:00 - 14:00 á skjaladaginn og þar verður heitt á könnunni. Engin formleg dagskrá verður í gangi, en sýndar dagbækur og skrif frá Benedikt Tómassyni skipstjóra frá Skuld og ljósmyndir og skjöl sem sýna og segja frá hafnargerð á Skaganum á fyrri hluta 20. aldar. Ljósmyndarar eru: Árni Böðvarsson, Bjarni Árnason, Jóhannes Gunnarsson, Magnús Ólafsson, Ólafur Árnason og Ólafur Frímann Sigurðsson. Þá verður gestum boðið að skoða geymslur safnsins.

Héraðsskjalasafn Dalasýslu


Miðbraut 11, 370 Búðardalur

Á laugardaginn verður opið hús hjá Héraðsskjalasafni Dalasýslu kl 13:00 - 16:00. Starfsemi safnsins kynnt fyrir gestum og sýning á völdu efni af safninu.

Héraðsskjalasafnið Ísafirði


Gamla sjúkrahúsinu, Safnahúsinu Eyrartúni, 400 Ísafjörður

„Hvass og rigning vestan“ er heiti sýningar sem Skjalasafnið Ísafirði verður með í tilefni af norræna skjaladeginum sem haldinn er laugardaginn 13. nóvember. Sýndar verðar dagbækur Guðmundar Jónssonar, lausamanns á Ísafirði, sem skrifaði veðurfarslýsingar daglega frá hausti 1879 til ársloka 1910. Vísar nafn sýningarinnar til fyrstu færslu Guðmundar þann 1. október 1879. Sýningin er í Gamla sjúkrahúsinu, Safnahúsinu við Eyrartún á Ísafirði, og verður opin í nóvember á opnunartíma hússins, frá kl 13:00 til 19:00 á virkum dögum og kl 13:00 til 18:00 á laugardögum.

Héraðsskjalasafn Svarfdæla


Ráðhúsi Dalvíkur, 620 Dalvík

Skjöl og fleira efni tengt skjaladeginum verður til sýnis í sýningarskáp sem héraðsskjalasafnið á í anddyri Menningahússins Bergs, sem vígt var á síðasta ári. Þar verður hægt að sjá frásögur og myndir. Sýningin verður opin út nóvembermánuð 2010.

Héraðsskjalasafn Austur-Skaftafellssýslu


Nýheimum, Litlubrú 2, 780 Höfn

Hjá Héraðsskjalasafni Austur-Skaftafellssýslu verður sýning á bókasafninu 13. nóvember kl. 13:00 – 16.00. Aðalefni: Baráttan við jökulárnar. Einnig verður opið hús á héraðsskjalasafninu og skjalageymslur til sýnis. Kaffi og með því. Sýningin verður síðan höfð uppi á bókasafninu út nóvembermánuð.

Héraðsskjalasafn Vestmannaeyja


Safnahúsinu, 900 Vestmannaeyjar

Sýning á veðurbókum úr Stórhöfða, veðurbók frá frostavetrinum mikla og handriti Árna Árnasonar, símritara frá Grund af upphafi og fyrstu árum Stórhöfðavita, var opnuð á laugardaginn í anddyri Safnahússins, þegar Nótt safnanna (Safnanótt á Suðurlandi) var haldin í Eyjum (öll helgin). Sýningin verður opin á opnunartíma safnanna út nóvembermánuð.

Norræni skjaladagurinn 13. nóvember 2010