Leiðari norræna skjaladagsins 2010
Veður eru mér jafngildi veraldrar, kvað Þorsteinn frá Hamri og með réttu því veðrið hefur haft mikil áhrif á líf og dauða fólks á Íslandi og öll kjör alþýðu manna.
Í elstu textum og skjölum íslenskum er ekki mikið að finna um veðurlag. Ein elsta veðurlýsingin er í Ljósvetninga sögu þar sem Þórdís Guðmundsdóttir ríka var að starfa að léreftum sínum, sér ástmögur sinn þeysa heim að bænum og segir: „Nú er mikið um sólskin og sunnanvind og ríður Sörli í garð.“ Kaldara dæmi er úr Þórðar sögu kakala þegar mönnum þótti ekkert athugavert við það að sjá ísjaka á Húnaflóa í lok júní árið 1244. Í annálum fara lýsingar á árferði og veðurfari smám saman að aukast eftir því sem á líður, en jafnan er þar meira sagt frá vondu veðri en góðu enda hallærin frásagnarverðari en góðviðrin.
Með vaxandi siglingum Englendinga og Þjóðverja á Íslandsmið til fiskiveiða á síðmiðöldum og auknum kaupsiglinum frá Danmörku skapaðist þörf fyrir sjókort og leiðarlýsingar af hafi. Tækni til að staðsetja skip og til hvers kyns mælinga tók einnig örum framförum og sama er að segja um veðurmælingar. Átjánda öldin er öld upplýsingarinnar. Þá er mikil gróska í hvers kyns vísindastarfi og þar með talið veðurfræðum. Þessi öld var líka tiltölulega friðsöm í Danaveldi eftir að lauk Norðurlandaófriðnum mikla um 1720 þannig að yfirvöldum þar gafst betra tóm til að sinna innanlandsmálefnum en um langa hríð.
Frá því um miðja átjándu öld hafa nokkuð reglulega komið hingað vísindamenn til að rannsaka náttúrufar landsins. Nefna má Niels Horrebow, Eggert Ólafsson og Bjarna Pálsson, Rasmus Lievog og Svein Pálsson en margir aðrir komu hér við sögu. Þessir menn allir skráðu margt um veðráttufarið. Árið 1777 voru sýslumenn krafðir um skýrslur um almennt ástand í héruðum sínum, þar á meðal um veðráttuna. En eiginlegar veðurathuganir var ekki farið að skrá fyrr en kom fram á nítjándu öldina og áttu þar m.a. hluta að máli norskir landmælingamenn sem dvöldu hér árin 1807-1814.
Síðar er fyrir frumkvæði Vísindafélagsins danska farið að gera veðurathuganir í Reykjavík og árið 1845 hóf Árni Thorlacius veðurathuganir í Stykkishólmi sem hafa staðið óslitið síðan. Fjölnismenn komu líka við sögu, því bókmenntafélagið stuðlaði að því að á prestum vítt og breytt um landið var falið að halda veðurdagbækur. Jónas Hallgrímsson átti þar hlut að máli. Þessar athuganir lognuðust þó fljótlega út af. Árið 1872 tók danska veðurstofan til starfa og hóf þá veðurathuganir á Íslandi sem hafa verið samfelldar til vorra daga og sífellt nákvæmari.
Í tilefni norræna skjaladagsins, sem helgaður er veðri og náttúru, hefur Þjóðskjalasafnið haft samvinnu við Veðurstofu Íslands um sýningar og samkomuhald. Héraðsskjalasöfnin eru jafnan mjög virk á þessum degi og efna mörg þeirra til sýninga tengdum veðri og náttúru landsins en hafa einnig sett efni inn á skjaladagsvefinn.
Leiðari skjaladagsins að þessu sinni er prýddur vísum Páls Bergþórssonar, fv. veðurstofustjóra, um „Veðrabrigði um ársins hring“ og ljósmyndum Helgu Jónu Eiríksdóttur, skjalavarðar á Þjóðskjalasafni Íslands.
Norræni skjaladagurinn 13. nóvember 2010