Þetta efni er frá: Héraðsskjalasafni Austur-Skaftafellssýslu, Höfn í Hornafirði
Austur-Skaftfellingar hafa löngum þurft að berjast við jökulárnar, sem voru erfiðar yfirferðar og hlupu reglulega fram og færðu þá nánast all sléttlendi í kaf. Sérstaklega varð Mýrasveit illa úti af þessum sökum svo oft lá við að sveitin legðist öll í eyði. Með minnkandi jöklum eru þessar hamfarir nú nánast úr sögunni. Kristján Benediktsson (1881-1969) bóndi í Einholti á Mýrum hefur skráð eftirfarandi minningarbrot frá því hann var 17 ára gamall:
Þegar ég kom upp fyrir túnið sá ég að vatn var farið að renna ofan á ísnum. Hljóp ég því heim aftur og tók klárinn Hæring og reið honum berbakt á beitarhúsin. Ég mun hafa þurft að dvelja nokkuð lengi á beitarhúsunum að sinna fénu. Er ég réðist til heimferðar var ekki fagurt um að litast, á milli beitarhúsanna og túnsins heima var yfir að líta einn vatnsflaumur með jakaburði. Ég hafði ekki vit á því þá heldur en svo oft endranær að snúa frá því sem ég hafði ætlað mér. Þó ekki væri álitlegt lagði ég í vaðalinn á Hæringi.
Ég rorraði þetta á klárnum með ýmsum krókaleiðum, sitt á hvað fyrir ísjakarekið ofan á vatninu sem vildi halda sína leið undan straumnum án tafar. Ég sá allt heimafólkið komið upp á hólinn til þess að horfa til mín. Það hefir verið uggur í mömmu minni, ömmu og systkinum um afdrif mín í þessari ófæru. Þetta gekk samt árekstralaust þar til kom að álnum norðan við túnið, hann var búinn að sprengja af sér ísinn svo að hestur og maður á baki hans steyptust báðir fyrir skörina og á bólakaf. Sjálfsagt hefir heimafólkinu liðið illa þær sekúndur sem ekki sást á mann og hest. Einhverju af vitglórunni mun ég hafa haldið þarna niðri í vatninu því ég fór að hugleiða að ef við fengjum eins djúpt við skörina hinu megin myndi erfitt að komast upp úr. En hesturinn kom upp og ég hélt báðum höndum um háls honum og yfir komumst við og heim á tún, fengum góða landtöku og báðir góðar viðtökur heima.
Norræni skjaladagurinn 13. nóvember 2010