Forsíða Leiðari Um skjaladaginn Dagskrá Getraun Skjalasöfnin Veðurslóðir
  • Sleipnir NK-54 liggur undir áföllum við bryggju í Neskaupstað.
  • Freyr NK–16 rekur upp á Neseyri.

Hafnir voru og eru lífæð sjávarbyggðanna um allt land, í gegnum þær hefur kom mestur sá gjaldeyrir er landsmenn hafa lifað af á gengnum árum. Margar þeirra voru mjög vanbúnað og erfiðar fram eftir árum. Með trébryggjur og báta í legu var áhættusamt og erfitt að mæta vondum veðrum, því urðu tíðir skaðar á þessum mikilvægu atvinnutækjum. Hér sjáum við tvær myndir af vondu veðri á Norðfirði og hvað gerðist í rokinu.

Í héraðsskjalasöfnum landsins er unnið þarft og gott verk við að safna saman og halda utan um sögu hinum ýmsu byggðarlaga, sem og í Þjóðskjalasafni Íslands. Í þessum söfnum kennir margra grasa, sum söfn eru svo heppin að hafa t.d. fengið í sínar hendur dagbækur og ljósmyndir. Þegar þetta efni er skoðað saman fáum við betri sýn í liðna tíð. Meðal þess efnis sem okkar safn hér í Norðfirði varðveitir eru dagbækur Marteins Magnússonar á Sjónarhól í Neskaupstað og ljósmyndir frá Birni Björnssyni fyrrum kaupmanni og ljósmyndara í Neskaupstað, og eru þessi skrif sótt í það efni.

Myndin af Sleipni NK-54 við Innri Bæjarbryggjuna er tekin laugardaginn 4. mars 1950 af Birni Björnssyni. Þarna lá Sleipnir er vont veður skall á og var vél hans í viðgerð og höfðu skipverjar ekki tök á því að koma honum frá bryggju af þeim sökum, til þess að halda sjó út á firði þar til veðrið gengi niður. Í þá daga var algengt að bátar héldu sjó úti á firði, meðan verstu veðrin gengu yfir. Sleipnir sakaði þó ekki í þessu óveðri.

Í dagbók sinni þann 4. mars segir Marteinn Magnússon svo frá:

Sunnan eða suðaustlægur í morgun, dálítil rigning en lítill vindur, létti til um 10 leitið og rauk þá upp vestan, háa rok seinni partinn í dag heldur lygndi um kvöldið.

Sleipnir NK–54 var byggður í Noregi 1926 og eftir stækkun hans þegar hér var komið sögu var hann sagður vera 71,67 tonn að stærð og var gerður út á togveiðar frá Neskaupstað þennan vetur.

Myndin af v.b. Frey NK–16, þar sem hann rak á land á Neseyri eftir að hafa slitnað frá bóli sínu á legunni á Norðfirði, er tekin laugardaginn 12. nóvember 1955 af Birni Björnssyni.

Í áður nefndri dagbók Marteins segir svo, laugardaginn 12. nóvember 1955:

Norðan eða norðvestan seinnipartinn, nokkuð hvast í mest alla nótt og afspyrnu rok í allan dag til kl. 4-5, fór þá að lygna.

Bátar slitna frá bólum, Freyr NK–16, bátur Páls Tómassonar og Páls Þorsteinssonar, rak á land og skemmdist víst mikið og Hafbjörg NK–7, bátur Jóns Péturssonar og Ara Sigurjónssonar, slitnaði líka upp, en náðist fljótt út aftur og skemmdist víst lítið. Svona mikið og langvarandi rok hefur ekki komið hér í nokkuð mörg ár.

Freyr var byggður á Akureyri 1920 og var 14 tonna að stærð, hann náðist út og fór síðar í mikla viðgerð og var gerður út í mörg ár eftir þetta óhapp.

Þessar tvær frásagnir og myndir eru bara dæmi um þau tjón er varð á bátum og skipum hér á Norðfirði á árum áður og einnig þann mikla fróðleik sem varðveittur er í okkar safni í formi skjala og mynda.

Norræni skjaladagurinn 13. nóvember 2010