Forsíða Leiðari Um skjaladaginn Dagskrá Getraun Skjalasöfnin Veðurslóðir
  • Snjógöng á Fjarðarheiði á 6. áratugnum. Myndin er úr myndasafni Guðjóns Sæmundssonar og er hann líklega ljósmyndarinn. Við enda gangnanna eru kona hans Kristín Jóhannesdóttir og dóttirin Erla.
  • Á leið upp á Hérað. Aurbleytan gerði mönnum lífið leitt og oft þurftu farþegarnir fara út að ýta. Myndina tók Emilía Blöndal og er maðurinn í hvíta frakkanum maður hennar, Theódór Blöndal bankastjóri.
  • Þorbjörn Arnoddsson við snjóbíl sinn. Hann annaðist árum saman vetrarferðir yfir Fjarðarheiði og var orðlagður fyrir dugnað og harðfengi og má segja að hann hafi orðið þjóðsagnapersóna þegar í lifanda lífi. Myndir er tekin 1967 daginn sem hann varð sjötugur. Þá hélt hann að venju áætlun yfir heiðina, en niður á Seyðisfirði drógu menn fána að húni í tilefni dagsins. Myndin er úr myndasafni Pálinu Waage dóttur Þorbjarnar. Myndasmiðurinn er Sigurjón Rist sem þennan dag var farþegi hjá Þorbirni.

Á Héraðsskjalasafni Austfirðinga eru varðveittar margar dagbækur sem eiga það flestar sameiginlegt að færsla hvers dags byrjar á veðurlýsingu. Hjálmar Guðmundsson frá Fagrahvammi í Berufirði gerir enn betur og lætur vísukorn fylgja veðurlýsingunni.

Þriðjudagur: 27. mars 1962
Norðaustan kaldi, frost.

Svelluð jörð og sólin mött
seinkar vini þráðum
-hér fer allt í hund og kött
ef hlýnar ekki bráðum.


Mánudagur: 9. apríl 1962
Austan snjókoma, frostlaust, hrafnagusa.

Hrafnagusan hrellir lýð
hún er löngum brellinn,
annað hvort með austan hríð
eða norðan hvellinn.

Í veðurfari eins og Hjálmar lýsir í dagbók sinni er ekki að efa að snjóþungt hefur verið á heiðum austan lands og þá ekki síst á Fjarðarheiði sem liggur á milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar. Yfir háveturinn var snjóbíll notaður til áætlunarferða og vegurinn ekki ruddur fyrr en sýnt þótti að vetrarveður væru að baki. Fór oft miklum sögum af snjógöngum og aurbleytu. Ekki settu menn það fyrir sig og þóttust eiga brýn erindi á Seyðsifjörð þar sem áfengisverslun fyrir Fjórðunginn var staðsett. Töluðu gárungarnir gjarnan um að skreppa yfir Alkohólinn.

Norræni skjaladagurinn 13. nóvember 2010