Forsíða Leiðari Um skjaladaginn Dagskrá Getraun Skjalasöfnin Veðurslóðir
  • Kjartan Júlíusson bóndi á Skáldstöðum í Eyjafirði skrifaði dagbækur a.m.k. frá 1937 til 1970. Oft skrifaði hann um veðrið og það mun nákvæmar en flestir. Kjartan skrifaði á ýmsa pappírsrenninga eða snepla og annað nýtilegt og rúllaði síðan upp og stakk á hentugan stað. Því miður var það ekki heppilegasta geymsluaðferðin og fyrir vikið er ekki allt sem hann skrifaði læsilegt og sumt eyðilagðist.
  • Sigurgeir Jónsson söngkennari og orgelleikari á Akureyri hélt dagbækur 1938 til 1954. Hér segir hann frá mikilli veðurblíðu í júní 1939, t.d. fór hitinn upp í 28,2°C þann 21. júní.
  • Ein af dagbókum Jóhannes Óla Sæmundssonar námsstjóra og ritstjóra. Jóhannes Óli hélt dagbækur 1927 til 1982 og sagði frá ýmsu, þ.á.m. veðrinu.

Oft hefur það heyrst að sumarið 1939 hafi verið besta sumar sem komið hefur. Trausti Jónsson veðurfræðingur segir í bók sinni Veður á Íslandi í 100 ár að það ár hafi tíðin verið mjög hagstæð, úrkoman hafi verið í meðallagi og sumarið hafi verið jafnbesta sumar aldarinnar. Á Héraðsskjalasafninu á Akureyri er nokkuð af dagbókum og í mörgum þeirra er sagt frá veðrinu. Hér eru sýnishorn frá því í maí 1939:

Þriðjudagur 9/5
Mikið til heiðríkt í morgun, kyrt veður, heiðmirkur þoka á Ak og í nágrenni, mun hafa verið frostkali til fjalla. Tók ekki hita en hann mun hafa verið um 6 - 7 °, stig. Hvarf þokan um kl. 8 f.h. og skein upp. Glatt sólskin í allan dag. Hiti á hád. áaðgiska 16 - 18°, stig tók hann ekki. Kyrt veður og hiti mikill fram yfir hád. en kom sunnanblær seint í dag er hjélst til kvölds; Hiti kl. 5 13°, stig. Hvít ský á stöku stað seinnipartinn, einkum í vestri. Í kvöld sunnankul dálitla stund en síðan kyrt veður; töluvert skýjað þó meira heiðríkt í kvöld. Ekki sjáanlegur skýjarekstur í dag. Um háttatíma sama veður, hiti 7°, stig.

G-173/20 Dagbókarblöð Kjartans Júlíussonar Skáldstöðum (jan.-maí 1939).

27. laugard. Sama blessað góðviðrið, þó dálítið stormasamt af suðvestri tvo - þrjá daga. nú sprettur óðum svo að það er orðið vel sláandi gras á heimatúninu. Kartöflugras komið upp og kálplöntur sem sáð var fræi. Eg man ekki eftir svo góðu vori síðan við komum hingað til Ak. 1904.

G-109/31 Dagbók Sigurgeirs Jónssonar söngkennara og orgelleikara á Akureyri 1939.

14-15/5 Sunnud. og mánud.
Alltaf er nú logn, sólskin og blíða. Dásamlegur vortími þessi maí. Það nálgast tugthúsvist, að verða að híma inni við skrifstofustörf í svona tíð.

25-27/5 Fimmtud. föstud. laugard.
Fjóla og Rósa eru alltaf úti frá morgni til kvölds, enda sífelldir hitar og þurrkar. Þetta er sá bezti maí, sem ég man eftir. Allt er nú að verða grasivafið, jafnvel komnir berjakoppar.

G-74/40 Dagbók Jóhannesar Óla Sæmundssonar janúar - maí 1939.

Norræni skjaladagurinn 13. nóvember 2010