Ólafur Björgvin Jónsson (1895-1980) framkvæmdastjóri og búnaðarráðunautur vann mestallan starfsaldur sinn í Gróðrarstöðinni á Akureyri. Samhliða störfum sínum þar fór hann að stunda ferðir í Ódáðahraun, fyrst meira sér til andlegrar upplyftingar en síðar urðu þetta markvissar könnunar og rannsóknarferðir. Niðurstaðan varð ritsafnið Ódáðahraun í þremur bindum, sem út kom árið 1945. Rúmum áratug síðar eða 1957 kom út annað ritsafn, Skriðuföll og snjóflóð í tveimur bindum. Ritið er að miklu leyti ávöxtur af rækilegri heimildakönnun þar sem Ólafur fór í gegnum annála, tímarit og blöð og skrifaði upp úr þeim allt sem lýtur að skriðum og snjóflóðum. Auk þess talaði hann við fólk sem mundi eftir þess háttar fyrirbærum og fór um landið og kannaði verksummerki.
Eftir útkomu þessa ritverks verða berghlaupin aðalviðfangsefni Ólafs. Ferðaðist hann um og skoðaði, samdi nákvæmar lýsingar, mældi, teiknaði og ljósmyndaði flest meiriháttar framhlaup í landinu og fjölmörg smærri. Afrakstur þess starfs er bókin Berghlaup sem kom út árið 1976.
Þessi miklu ritverk Ólafs eru ekki hvað síst merkileg fyrir það að þarna var búfræðingur að fjalla um jarðfræðileg efni. Þó svo að jarðfræðilegar kenningar Ólafs þyki ekki alltaf réttar, þá eru lýsingar hans á landslagi og staðháttum ýtarlegar og traustar.
Ýmislegt annað er til á prenti eftir Ólaf s.s. bókin Dyngjufjöll og Askja og ljóðabókin Fjöllin blá. Hann var ritstjóri Ársrits Ræktunarfélags Norðurlands um áratuga skeið og samdi auk þess leikrit og sögur.
Mörg af handritum Ólafs eru varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri en yfirlit yfir þau má sjá hér.
Norræni skjaladagurinn 13. nóvember 2010