Flóð í Héraðsvötnum í Skagafirði hafa oft á tíðum valdið miklum sköðum, enda er Skagafjörður afar flatlendur og á hið gríðarmikla vatn sem rennur til sjávar í slíkum flóðum greiða leið um stóran hluta fjarðarins. Sérstaklega geta vorflóðin verið hættuleg og hefur lengi verið reynt að verja lönd bænda með varnargörðum. Stærsta flóð sem komið hefur í Vötnin á síðari tímum hófst um hádegi 28. mars árið 2000 þegar klakastífla myndaðist um kílómeter fyrir framan Húsabakkabæina, sem standa á bökkum Héraðsvatna. Stóð flóðið í um það bil einn sólarhring og var Skagafjörður eins og stöðuvatn yfir að líta. Flóðið náði um hálfan meter upp á veggi íbúðarhússins á Ytri-Húsabakka og skemmdir af flóðinu urðu afar miklar, bæði á húsum og ekki síður á túnum, vegum og girðingum bænda. Ekkert mann- eða skepnutjón varð hins vegar af flóðinu.
Norræni skjaladagurinn 13. nóvember 2010