Árið 1940 var ákveðið að virkja Stífluá í Fljótum til að sjá Siglfirðingum fyrir rafmagni, enda var síldariðnaðurinn þjóðinni mikilvægur og mikill rafmagnsskortur á Siglufirði. Virkjað var við Stífluhóla, en þar fyrir neðan breytti áin um nafn og hét Fljótaá. Unnið var að gerð virkjunarinnar á árunum 1942-1945. Stíflugarðurinn var 31 meter á hæð frá neðstu undirstöðu að brún. Afleiðingin var sú að ein fegursta sveit landsins fór undir vatn. Fjórar jarðir eyddust alveg og 6 í viðbót urðu óbyggilegar. Líklega átti ekki lengur við vísa Páls Pálssonar á Knappstöðum sem var ort um gróðursæld Stíflunnar með því orðalagi sem þekkt var í Fljótum.
Gróa fíblar fróni á,
Finnst því ríblegt heyið.
En hve líblegt er að sjá
Ofan í Stíblu greyið.
Lúðvík Kemp verkstjóri hagyrðingur orti hins vegar mikinn brag sem var ortur í anda Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar. Kemp kallaði braginn Gautastaðahólma og eru þar þessar línur:
Skein yfir Fljótin sól á sunnudegi,
Sveipaði þoka margan fjallatind,
Rölti ég fullur fyrirmyndarvegi,
Fikraði áfram líkt og drullukind.
Hátt yfir sveitum hrafnar glaðir klaka
Í himinblámans – fagurtærri lind.
Við Skeiðsfossinn ýmsir yfir víni vaka.
Vitrustu bændur lifa á skaðabótum.
...
Ryðgaðir víða landadunkar lágu
Laggbrotnir, dreifðir út um sinugrundir.
Líka var fleira svipað, er þeir sáu
Sérkennilegt þar hlíðarbrekkum undir.
Í djúpinu hýrist hörðum vafin dróma
Himinblá stör og fagrir víðirlundir.
Þetta er ei framan sveitinni til sóma.
Svona er hverfult lán og yndisstundir.
...
Þar sem áður akrar huldu völl,
andskotans flóð er nú til beggja handa.
Hélugrá líta enn þá Fljótafjöll
Framsóknarmenn í stórkostlegum vanda.
Draugarnir flúnir, drukknuð liggja tröll
Djöfullinn má í hreingerningum standa.
...
Norræni skjaladagurinn 13. nóvember 2010