Undanfarið hafa komið fram ýmsar tillögur um sjóbaðstað fyrir Reykjavík. Er það að vonum, því þörfin fyrir sjóbaðstað hér er mikil, a.m.k. á sumrum þegar sólar nýtur að skaplegum hætti. En þá finna menn meira en ella nauðsyn þess að skola af sér svita og óhreinindi dagsins, láta hressandi vindblæ leika um líkamann og húðina og ylja sig við sólargeislana og sækja í þá mikilvægar fjörefnabirgðir fyrir veturinn.
Á þessum orðum hefst greinargerð frá embætti borgarlæknis árið 1948 „um sjóbaðstaði í Fossvoginum og útivistarsvæði á Öskjuhlíð.“ Þar er getið um þörfina á sjóbaðstað eftir að sjóbaðstaðurinn í Skerjafirði hefði verið lagður niður með mikilli eftirsjá Reykvíkinga og því myndaðist ákveðið tómarúm þegar hans naut ekki lengur við. Í greinargerðinni er lifandi lýsing á hollustu sjóbaða, m.a. segir:
Þeir, sem reynt hafa, vita, að það er jafnt andleg sem líkamleg hvíld og nautn fólgin í því að synda í sjó, busla í brimöldum, heyra nið þeirra og njóta um leið sjávarlofts og sólar. Seltan í sjávarlofti og sjó, vindblærinn og hinir sterku útfjólubláu geislar sjóbaðstrandarinnar styrkja húðina og örva starf hennar, og sundið þjálfar vöðva, hjarta og lungu. Sjóböðin auka því vellíðan og starfslöngun og hressa líkama og sál.
Ennfremur er lýsing á þeirri aðstöðu sem þurfi að vera fyrir hendi:
Í sambandi við búningsklefana þurfa að vera salerni og þvagstæði og helst steypiböð og fótlaugar. Rétt væri að byggja búningsklefana þannig, að koma mætti fyrir “finnsku gufubaði” í sambandi við þá, ef það myndi verða álitið heppilegt, en með því mætti sennilega lengja baðtímabilið talsvert. – Loks væri mjög hentugt að hafa í sambandi við búningsklefana, eða í nánd við þá, ódýran veitingastað, þar sem hægt væri að fá heitar pylsur, kaffi, brauð, gosdrykki o.s.frv., þannig að baðgestir þyftu ekki nauðsynlega að fara heim til þess að matast. Slíkur veitingastaður yrði að sjálfsögðu rekinn bænum að kostnaðarlausu.
Hér má lesa greinargerð Jóns Sigurðssonar, borgarlæknis í heild sinni (PDF skjal).
Í framhaldi af greinargerð borgarlæknis til borgarráðs var komið upp aðstöðu til sjóbaða í Nauthólsvík og bætt við skeljasandi.
Gjörbylting varð með upphitun á sjónum og stórbættri aðstöðu í sjóbaðstaðnum í Nauthólsvík sem opnaði á árinu 2000.
Norræni skjaladagurinn 13. nóvember 2010