„Engihjallaveðrið“ er nafnið á óveðri sem geisaði á Íslandi 16.-17. febrúar 1981. Vindur mældist á bilinu 70-100 hnútar á höfuðborgarsvæðinu. Veðrið olli meðal annars töluverðu tjóni á bifreiðastæðum við Engihjallablokkirnar nr. 1, 5, 17 og 19 í Kópavogi. Bílarnir fuku eins og lauf í vindi, en auk þess var hált á stæðinu. Talið er að háar blokkirnar hafi gert illt verra og skapað staðveður með því að leiða loftstrauma með veggjunum og í allskyns hvirfla og vindstrengi. Haft var eftir veðurstofustjóra í Morgunblaðinu 7. september 2006 að slíkt veður gæti endurtekið sig vegna þeirra blokka og háhýsa sem risið hafa á undanförnum árum á höfuðborgarsvæðinu.
Engihjallablokkirnar svokölluðu voru reistar af byggingarfélögum og bjó margt ungt fólk í þeim með börn. Vegna stórra glugga á blokkunum og veðurofsa sem buldi á rúðunum var börnum haldið inni í hvarfi frá þeim af ótta við að þær brotnuðu í veðrinu.
Vitað er til þess að sveinbörn er fæddust á meðan óveðrinu stóð hlutu nafnið Kári vegna veðurofsans.
Í óveðrinu 16.-17. febrúar 1981 fórust tveir menn af bátnum Heimaey frá Vestmannaeyjum, en þá tók út þegar brimskafl reið yfir bátinn. Út um land fuku hús og sumarbústaðir m.a. Staðarhólskirkja í Dalasýslu. Rafmagnslaust varð víða m.a. í Reykjavík og kalt varð í húsum þar sumstaðar þar sem dælur hitaveitunnar fóru úr sambandi.
Nokkur illræmd íslensk fárviðri hafa hlotið nafn á Íslandi líkt og Engihjallaveðrið, en það er Halaveðrið í febrúar 1925, Flóaveðrið 9. janúar 1990 og Gróðurhúsalægðin gekk yfir Hveragerði 3. febrúar 1991. Veðurhamfarir eins og Básendaflóðið hafa og átt nöfn að ógleymdum vetrum eins og Lurki (1601), Píningi (1602) og Frostavetrinum mikla 1918. Fleiri dæmi eru um að mannskaðabyljir og skaðræðisveður hafi fengið nöfn. Ólafarbylur(1479, kenndur við Ólöfu ríku Loftsdóttur sem þá lá banaleguna),, Hæringsveðrið, Linduveðrið (1969, kennt við súkkulaðiverksmiðjuna Lindu sem skemmdist), Fönixbylurinn (1881, kenndur við póstskipið Fönix sem fórst), Edduveðrið (1953, en þá hvolfdi skipinu Eddu), Flateyrarveðrið (1995 er snjóflóðin urðu á Flateyri). Fleiri dæmi mætti nefna.
Héraðsskjalasafn Kópavogs sækist eftir myndum og frásögnum af Engihjallaveðrinu úr Kópavogi.
Tenglar til umfjallana um Engihjallaveðrið:
Norræni skjaladagurinn 13. nóvember 2010