Forsíða Leiðari Um skjaladaginn Dagskrá Getraun Skjalasöfnin Veðurslóðir
  • DV, mánudag 23. janúar 1984, forsíða.
  • BSR: Málasafn borgarverkfræðings. Málaflokkur: Snjómokstur. Askja nr. 50.

Rétt eftir hádegi sunnudaginn 22. janúar 1984 komu fyrstu snjókornin. Veðurspáin hafði ekkert verið sérstaklega slæm fyrir helgina og því margir farið út úr bænum. Fljótlega fór að hvessa og skafa í höfuðborginni og nágrenni hennar. Allar samgöngur á Suður- og Vesturlandi fóru úr skorðum vegna éljagangs og skafrennings. Björgunarsveitir á öllum þéttbýlisstöðum frá Snæfellsnesi til Víkur í Mýrdal voru kallaðar út til aðstoðar ferðafólki sem komist hafði í hann krappan á þjóðvegum og fjöldi fólks var teppt fjarri heimilum sínum. Tvö banaslys mátti rekja til óveðursins. Snjóruðningur í Reykjavík hófst fyrir allar aldir á mánudagsmorgun, en um áttaleytið þann morgun gerði snjóhríð sem setti strik í reikninginn og dróst snjóruðningurinn því á langinn fram á þriðjudag. Reykjavíkurborg var með reglubundna snjóvakt en kalla varð út auka mannskap og leigja viðbótartæki til að koma fólki í vinnu og skóla á mánudegi og þriðjudegi.

Skjalið sem um ræðir er skýrsla gatnamálastjóra til Davíðs Oddssonar borgarstjóra varðandi stöðu snjómoksturmála. Það gefur yfirlit yfir tækjakost og mannafla sem notaður var til þess að koma samgöngum í eðlilegt horf þriðjudaginn 24. janúar 1984 eftir þetta mikla óveður. Eins og fram kemur í texta skjalsins var kostnaðurinn við snjómoksturinn þennan tiltekna janúardag tæplega ein milljón króna.

Árið 1984 nam kostnaður við snjómokstur í Reykjavík um 156 milljónum króna og var það um 20 milljónir króna umfram meðaltal áranna á undan.

Heimild:
DV, 23. janúar 1984, forsíða og DV, 24. janúar 1984, baksíða.

Norræni skjaladagurinn 13. nóvember 2010