Á tuttugu ára afmæli Skíðafjelags Reykjavíkur árið 1934 kom fram í ræðu formannsins að hugmyndin að stofnun félagsins hefði kviknað á meðal hóps skíðamanna sem stunduðu íþróttina í Ártúnsbrekkunni snjóaveturinn 1914. Á bilinu 60-70 menn mættu á stofnfundinn sem haldinn var 26. febrúar það ár. Leifur H. Möller var kjörinn formaður og gegndi hann starfinu allt til ársins 1939. Viku síðar var fyrsta skíðanámskeiðið haldið og margar skíðaferðir voru farnar. Meðal annars var farið með flóabátnum Ingólfi inn í Hvalfjörð og þaðan var síðan gengið yfir Kjöl til Þingvalla o.s.frv.
Áskorun, undirrituð af „bestu borgurum bæjarins“ var send til allra Reykjavíkurblaða í marsmánuði sama ár þar sem fólk var hvatt til þess að styrkja félagið með fjárframlögum og efla þannig skíðaíþróttina. Fullyrt var að skíðin væru besta farartækið sem völ væri á og auk þess væri skíðaiðkun „holl og ágæt“ íþrótt. Lögð var sérstök áhersla á að útbreiðsla skíðaíþróttarinnar myndi geta afstýrt mörgum banaslysum sem ættu sér stað þegar fólk yrði úti í hríðarbyljum. Í stað þess að kafa snjóinn og brjótast áfram þyrfti að kenna fólki að renna sér ofan á snjónum og tileinka sér ennfremur að nota kort og áttavita. Hvort sem það var framgangi skíðaíþróttarinnar að þakka eður ei þá kom það fram í afmælisræðunni að 116 manns hefðu farist í snjóbyljum á tuttugu ára tímabili fyrir stofnun skíðafélagsins en einungis 68 manns hefðu orðið úti í þá tvo áratugi sem félagið hefði verið starfrækt.
Formaðurinn minntist þess jafnframt að Skíðafjelagið hefði eignast „mótstöðumenn“ í kjölfar þess að áskorunin birtist á prenti. Maður nokkur hefði til dæmis lýst gremju sinni í blaðinu Lögrjettu vegna þess að skíðamenn hefðu tekið upp þann ósið að binda skíðin föst og nota tvo skíðastafi í stað eins og áður hafði tíðkast og litu því skíðamennirnir út eins og ferfætlingar.
Fram kemur ennfremur í ræðu formannsins að það hafi ekki þótt beinlínis skynsamlegt á upphafsárum félagsins að konur væru að álpast upp um fjöll og firnindi þegar allra veðra var von.
Það eru ekki mörg ár síðan að menn álitu það mikla áhættu fyrir stúlkur að ferðast um há vetur á fjöllum uppi, en nú er það oft að stúlkurnar eru oft í meiri hluta á fjallgöngum okkar, og fyrir tveimur árum voru 4 stúlkur með í ferðinni inn í Hvalfjörð, en þaðan gengum við Kjöl (2300 fet yfir sjávarmáli) til Svanastaða í Mosfellssveit, en þær ljetu erfiðið ekki á sig fá, þrátt fyrir vont veður og vonda færð síðustu 15 km. Fyrir 20 árum hefði Skiðafj. sennilega verið sakað um morðtilraun, ef það þá hefði farið í svo erfiðar fjallaferðir með stúlkur.
Norræni skjaladagurinn 13. nóvember 2010