Bjarni Benediktsson kaupmaður á Húsavik fæddist á Grenjaðarstað 29.september árið 1877. Rúmlega sautján ára hóf hann störf við verslun Ørum & Wulffs á Húsavík og starfaði þar í rúman áratug. Hann fór í erindum verslunarinnar til Grímseyjar og Flateyjar þar sem verslunin var með útibú til að taka á móti fiski og verka hann. Einnig ferðaðist hann um héraðið milli viðskiptavinanna til að endurnýja verslunarbækurnar út frá bókum heimilanna. Hann öðlaðist með þessu mjög yfirgripsmikla þekkingu á versluninni í héraðinu sem hann naut góðs af þegar hann hóf rekstur eigin verslunar ásamt föður sínum 1907.
Bjarni lét byggja verslunarhús við Garðarsbraut á Húsavík og rak þar verslun allt til ársins 1931. Verslunar- og atvinnurekstri Bjarna á Húsavík má skipta í þrjú skeið. Upphafsskeiðið stóð til loka fyrri heimsstyrjaldarinnar og einkenndist af bjartsýni og vexti en jafnframt í lokin af erfiðleikum sem fyrri heimsstyrjöldin olli í Íslandsversluninni með verðhækkunum, vöruskorti, landsverslun og tregðu í útflutningi.
Næsta skeið náði frá því um 1920 og fram til ársins 1925 þegar gengishækkun íslensku krónunnar kippti fótunum undar arðbærum útflutningi. Síðasta skeiðið var endurreisnarskeið sem Bjarni stóð fyrir sjálfur með bátasmíðum og auknum umsvifum við verslun og verkun en kreppan mikla batt enda á það. Bjarni var ekki tilbúinn til að halda áfram eins og horfurnar voru og því varð verslunin gjaldþrota og atvinnurekstrinum hætt árið 1931.
Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011