• Bréf Guðbrands Magnússonar 14.7.1942 varðand undanþágur til áfengiskaupa á stríðsárunum.
  • Í Strandgötu 35, Havsteenshúsi, var fyrsti útsölustaður Áfengisverslunar ríkisins á Akureyri.
  • Krossað við húsið Hafnarstræti 102, Rotterdam, en þar var Áfengisverslun ríkisins aðeins eitt ár, vegna andstöðu við „sprúttsölu“ í miðbænum.

31. maí 1922 var sett reglugjörð um sölu og veitingar vína. Áfengisverslun ríkisins mátti þá ein flytja inn vín, þ.e. undir 21% að styrkleika og einungis selja til útsölustaða verslunarinnar, til veitingastaða með vínveitingaleyfi og til lyfsala og lækna. Útsölustaðirnir skyldu vera í hverjum kaupstaðanna. Færðar skyldu sérstakar löggiltar vínsölubækur, þar sem inn voru færð kaup hvers og eins. Ekki mátti sami maður kaupa meira en 10 lítra á mánuði, ekki vera yngri en 18 ára, ekki mátti sjá vín á kaupanda og ekki mátti hann hafa verið drukkinn á almannafæri, né opinberri samkomu.

Settur var á stofn útsölustaður á Akureyri haustið 1922. Jón Stefánsson kaupmaður og ritstjóri fékk meðmæli bæjarstjórnar til að veita versluninni forstöðu en jafnframt mótmælti bæjarstjórn við Stjórnarráð Íslands að settur væri hér útsölustaður. Það vakti líka kurr þegar Jón Stefánsson kom áfengisbúðinni fyrir í hinni gamalkunnu verslun Jakobs V. Havsteen í Strandgötu 35. Hann stillti þar vínflöskum í gluggana eins og mögulega komst fyrir. Jón flutti verslunina ári seinna í Hafnarstræti 102 (sem síðar var kallað Rotterdam vegna rottugangs). Þar setti hann upp skilti til að vísa á búðina, en fékk á sig fyrir vikið alls kyns svívirðingar, jafnvel í blöðum, þar sem verslunin var kölluð „sprútthola“ sem setti ljótan svið á bæinn. Jón flutti áfengisverslunina enn á ný árið 1924 og þá aftur niður í Strandgötu 35. Þar var verslunin fram um 1953, er hún flutti í Gránufélagsgötu 4 en bókabúð opnuð á fyrri stað. Við lát Jóns árið 1945 tók kona hans Gerda Stefánsson við forstöðu og gegndi þeirri stöðu í 20 ár og er hún trúlega fyrsta konan sem gegndi stöðu útibússtjóra Áfengisverslunar ríkisins.

Bann við sölu á sterku víni var afnumið 1935 og á stríðsárunum komu fram háværar kröfur um lokun áfengisverslana. Á þeim árum var setuliðinu leigt húsið í Strandgötu 35 þar sem áfengisverslunin var í kjallaranum. Málamiðlun við algjöra lokun varð undanþáguveitingar, í höndum útibússtjóranna. Undanþágur fengu menn t.d. fyrir reisugilli, töðugjöld, stórafmæli o.fl. (sjá mynd af bréfi d. 14.7.1942).

Í tengslum við þingkosningar 1953 fór fram atkvæðagreiðsla á Akureyri um lokun áfengisverslunarinnar. Lokun var samþykkt með 1730 atkv. gegn 1274. Bannið kom til framkvæmda í janúar 1954 og gilti þar til opnað var aftur þremur árum síðar á sama stað og fyrr þann 2. jan. 1957, að undangenginni atkvæðagreiðslu. Ekki tókst þó að þurrka Akureyringa upp með þessum aðgerðum, því að bannið kallaði á aukið smygl og brugg og einnig brugðu menn á það ráð að skreppa með „hraðbát“ til Siglufjarðar til að komast í áfengisverslun.

Í maí 1961 auglýsti Áfengisverslun ríkisins eftir húsnæði til kaups fyrir útsölu og birgðageymslu keypti í kjölfarið húseign Lindu við Hólabraut og flutti þangað að breytingum loknum. Í Hólabraut 16 er Vínbúðin enn til húsa 50 árum síðar.

Helstu heimildir:
  1. Verkamaðurinn, 19.9.1923, 4.12.1953.
  2. Alþýðumaðurinn, 9.9.1947, 16.5.1961.
  3. Lögrétta, 24.7.1922.
  4. Dagur, 4.12.1953 21.11.1956, 15.12.1956.
  5. Saga Akureyrar 4. og 5.b.
  6. HskjAk. Einkaskjöl frá Jón Stefánssyni.

Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011