Sagt er að matarmenning Akureyringa hafi batnað töluvert þegar Vilhelm Knudsen fluttist til Akureyrar árið 1902. Vilhelm fæddist í Reykjavík 5. ágúst 1866 og lagði stund á ýmislegt áður en hann kom til Akureyrar. Hann var stúdent, var eitthvað í Prestaskólanum og tók heimspekipróf 1888. Síðan kenndi hann börnum bæði í Reykjavík og á Austurlandi og var verslunarmaður á Fáskrúðsfirði. Um haustið 1903 varð Knudsen framkvæmdastjóri hlutafélagsins Eyjafjörður en markmið þess var kjöt- og fisksala og pylsugerð. Sumarið eftir opnaði félagið verslun í Hafnarstræti 93 en það hús var jafnan nefnt Jerúsalem. Húsið brann árið 1945.
Hvað varð um hlutafélagið Eyjafjörður er ekki alveg á hreinu en jafnan er talað um Knudsen kjötkaupmann eftir 1904, eins og hann hafi verið sinn eigin herra. Knudsen var með búð í Strandgötu 5 en húsið var kallað Hornhúsið og stóð á mótum Hafnarstrætis og Strandgötu. Í október 1905 brann húsið til kaldra kola, ásamt fjórum öðrum verslunarhúsum, bakhúsum og skúrum. Sex verslanir urðu þarna eldi að bráð og á annað hundrað misstu heimili sitt. Í brunanum fórust 18 hænsn Knudsens og kötturinn hans fannst daginn eftir, illa sviðinn en þó óbrenndur og hinn sprækasti. Eftir þetta flutti Knudsen búðina í Hafnarstræti 88 og rak áfram til 1910 er Kaupfélag Eyfirðinga keypti búðina. Knudsen flutti til Reykjavíkur 1912.
Á meðan Knudsen rak kjötverslun kom hann upp sláturhúsi og reykhúsi og fékk lærðan slátrara frá Kaupmannahöfn til að annast framleiðsluna. Miklar kröfur voru gerðar til hreinlætis við slátrunina og aldrei fyrr hafði það frést að kaupmaður neitaði að kaupa skepnu til slátrunar vegna þess að hún væri sjúk. Knudsen var gleðimaður og tók þátt í leiksýningum, enda leikari af guðs náð, flinkur skrautritari og sjálfstæðismaður fram í fingurgóma.
Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011