• Sigurður P. Jónsson kaupmaður á Dalvík.
  • Síða úr sjóðsbók verslunar Sigurðar P. Jónssonar.

Sigurður P. Jónsson (1890 - 1975) stofnaði verzlun undir eigin nafni 4. desember 1919 og starfrækti til elliára. Enginn kaupmaður hefur verzlað lengur á Dalvík en hann. Sigurður hafði aldrei mikið umleikis, áhuginn beindist fremur að ýmsu öðru en kaupskap, hann lét sér raunar fátt með öllu óviðkomandi og fórst þá bezt, er hann starfaði í annarra þágu. Hann kvaðst og ekki hafa grætt á verzlun sinni.

Sigurður rak „blandaða“ verzlun og kenndi þar ýmissa grasa. Sá var háttur hans, að sögn, að neita að selja vöru, væri hún ekki fyrsta flokks, þótt sjálfur hefði hann glæpzt til að panta hana. Hann sendi þá viðskiptavini úr búðinni hjá sér út í kaupfélag, vissi hann vöruna hótinu skárri þar. Alloft kvað það hafa komið fyrir að hann fleygði lélegum varningi eða gæfi, uppfyllti hann ekki gæðakröfur hans.

- - -

Sigurjón Sigtryggsson á Siglufirði, sem hér er farið í smiðju til, þekkti vel til Sigurðar fyrr á verzlunarárum hans, og segist honum svo frá:

„Einu sinni kom ég í Siggabúð með afa mínum, Jóhannesi smið á Hæringsstöðum. Hann spurði um „tommu-sporjárn“. Jú, þau voru til. Afi vildi fá eitt.
„Það er vani“ sagði Siggi, „að spyrja um verð, áður en ákveðið er að kaupa.“
„Ef ég þarf smíðatól,“ anzaði afi, „er ég ekki vanur að þrefa um verð.“
Þá vildi Siggi fá að vita, hvort hann hefði spurt um þau í kaupfélaginu. Og þrefuðu þeir nokkra stund, þar til afi fékk að lokum sporjárnið. Man ég, að afi minntist eitthvað á það við mömmu, að seint ætlaði Siggi að verða kaupmaður.“

- - -

Það kom fyrir að hann gleymdi að aflæsa á eftir sér, er hann fór, og er í frásögum að búðardyr stæðu jafnvel galopnar, er viðskiptavinir komu aðvífandi, en kaupmaður víðs fjarri. Einnig er mælt, að fyrir kæmi, að búðin væri ólæst næturlangt; þess þó ekki getið, að hnuplað hafi verið úr verzlun hans.

Heimild:
Kristmundur Bjarnason. Saga Dalvíkur, 3. bindi. Dalvíkurbær, 1984.

Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2011