Forsíða Leiðari Um skjaladaginn Dagskrá Getraun Skjalasöfnin Veðurslóðir
  • Gilsbakki um 1990. Mynd úr skjalasafni Búnaðarsamtaka Vesturlands. Ljósmyndari Jón Karl Snorrason.
  • Hjónin á Gilsbakka. Séra Magnús Andrésson og kona hans Sigríður Pétursdóttir. Ljósmyndari P. Brynjólfsson.
  • Bréf til sr. Magnúsar frá V. Willaume-Jantzen frá 30. ágúst 1887.
  • Fyrri hluti nóvembermánaðar 1887.
  • Seinni hluti nóvembermánaðar 1887.

Á árunum 1887 til 1912 gerði séra Magnús Andrésson á Gilsbakka í Hvítársíðu veðurathuganir fyrir dönsku veðurstofuna. Varðveittar eru 25 veðurbækur frá þessu tímabili í skjalasafni séra Magnúsar í Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar. Einnig hafa varðveist nokkur bréf frá V. Willaume-Jantzen Det danske meteorologiske Institut Kaupmannahöfn.

Fyrsta veðurmælingin er 5. nóvember 1887 og er hún með rithönd séra Magnúsar. Í athugasemd um veðrið þann dag segir séra Magnús „Smukt. Morgenröde:V“.

Nokkuð vantar upp á að veðurmælingarnar séu samfelldar og hefur þar líklega ráðið annríki séra Magnúsar en hann var þingmaður Mýramanna á árunum 1901-7 og 1911-13. Hann var einnig prófastur í Mýrasýslu 1883-92 og 1911-13. Bjó sr. Magnús á Gilsbakka frá 1881 þar til hann lést árið 1922.

Veðurbækurnar sem skráð er í eru í frekar litlu broti og eru prentaðar sérstaklega til þeirra nota eins og sjá má á mynd af veðurbók nóvembermánaðar 1887. Fremst og aftast í bækurnar skrifar Magnús gjarnan ýmsar athugasemdir eins og t.d. í veðurbók nr. 21: „Eptir mælingu herstjórnarráðsins í Danmörku 1910 er hæð Gilsbakka kirkjumænis yfir hafflöt: 173,3 stikur = 552,1338 fet = C. 552 fet“.

Til frekari fróðleiks er hægt að skoða samantekt Trausta Jónssonar veðurfræðings á veðurathugunum og meðalhita á Gilsbakka 1887-1912 á síðu Veðurstofu Íslands.

Norræni skjaladagurinn 13. nóvember 2010