Forsíða Leiðari Um skjaladaginn Dagskrá Getraun Skjalasöfnin Veðurslóðir
  • Innrásarker frá Normandí komið að bryggju. Ljósmynd: Ólafur Árnason.
  • Steinsteypt ker damlandi í höfninni við Heimaskaga. Ljósmynd: Árni Böðvarsson.
  • Dælt upp úr steinsteyptu keri til að unnt sé að fleyta því. Ljósmynd: Árni Böðvarsson.

Árið 1946 fest Akranesbær kaup á fjórum steinsteyptum kerum í Englandi, og samdi Arnljótur Guðmundsson bæjarstjóri við dráttarfélag í Hollandi að draga þessi fjögur ker hingað til Akraness. Þessum kerum á svo að sökkva til lengingar hafnargarðinum. Þau eru 62 m. á lengd 15 metrar á breidd að neðan og ca. 6 metra frá botni, þar kemur stallur og er því kerið ekki nema 10 m. að ofan, og má því til steypa ca. 7 m hátt á þennan stall til þess að ná kerbrún (efri) því þau eru 13. m. há (eða djúp).

Fyrsta kerið kom hingað 25. júní kl. 5 e. m. eftir 13 daga ferð frá Englandi. Dráttarbáturinn sem kom með það heitir „Tyne“. Það var hægur norðaustan kaldi, fagurt veður, þegar því var lagt að hafnargarðinum.

Flaggað var á öllu Akranesi þar sem flaggstangir voru. Mikill mannfjöldi var á hafnargarðinum til að taka á móti þessu bákni.

Þegar ég ásamt mörgum öðrum kom upp á þetta ker, og sá hvað vandað það var í alla staði sagði ég við þá er næstur mér stóðu, að þetta væri blómsturvasi Akraness, ekki svo að skilja að blóm yrðu í því geymd, heldur myndi Akranes blómgast af skjóli því er þessi ker sköpuðu þegar búið væri að koma þeim fyrir þar sem þau ættu að vera, og búið væri tryggt undir þau, og heppnaðist að sökkva þeim. Því eins og menn vita sem stundað hafa sjó héðan af Akranesi, að hér hafa verið mjög svo takmörkuð skilyrði til að vera með tugi báta án nokkurs skjóls. Þessu keri var lagt við litlu bryggjuna.

18. júlí kom hingað annar dráttarbátur frá sama félagi „Ganges“ að nafni með annað ker, hann var 17 daga á leiðinni. Þetta ker var látið framan við litlu bryggjuna til þess að fá skjól, svo hægt yrði að vinna við það fyrra.

1. ágúst kom svo fyrri báturinn kl. 12 á miðnætti með 3. kerið og var því lagt á ská frá hinu kerinu, svo þarna hefur myndast bráðabyrgðar höfn. Það var 14 daga á leiðinni.

17. ágúst var skýjað loft en logn kl. 8 f.m. kom Ganges aftur með fjórða og síðasta kerið; svo þetta hefur gengið að óskum að koma þeim hingað nú var hann 15 daga á leiðinni. Eins og áður var sagt ef þessi ker komast vel og rétt niður með traustri undirbyggingu þá mega, og verða kátir Akurnesingar, og horfa fram á bjarta framtíð. Þetta ker er látið standa í Halakotssandinum það er 2 m. lægra en hin, en að öðru leiti eins.

Útdráttur úr frásögn Benedikts Tómassonar (1876-1961), skipstjóra frá Skuld á Akranesi, af því þegar steyptu kerin komu á Skagann.

Norræni skjaladagurinn 13. nóvember 2010