Forsíða Leiðari Um skjaladaginn Dagskrá Getraun Skjalasöfnin Veðurslóðir
  • Síða úr skýrslu Hermaníusar Jónssonar til amtmannsins í Suðuramti.
  • Veðurlýsing úr skýrslunni, fyrsti hluti.
  • Veðurlýsing úr skýrslunni, annar hluti.
  • Veðurlýsing úr skýrslunni, þriðji hluti
  • Veðurlýsing úr skýrslunni, fjórði hluti.

Beretning angaaende Rangarvalla Syssels
almindelige Tilstand, fra 1te Januar til
31te August 1880

15. september 1880 skrifar sýslumaðurinn í Rangárvallasýslu, Hermaníus Jónsson, skýrslu sína um almennt ástand í sýslunni til amtmannsins í Suðuramti. Í skýrslunni er fjallað um veður, skepnuhöld, garðrækt, fiskveiðar, verslun, heilsufar og slysfarir. Skýrslan er skráð á forprentað eyðublað.

Skýrslur af þessu tagi var farið að taka saman að undirlagi Rentukammersins í Kaupmannahöfn á 9. áratug 18. aldar (Lovsamling V. s-483-4).

Hér er aðallega sýndur hluti skýrslunnar, dálkurinn með verðurlýsingu frá ársbyrjun 1880 til loka ágústsmánaðar. Rithöndin er óvenjulega skýr og læsileg og því er textinn ekki skrifaður upp.

Í lýsingunni kemur m.a. fra að óvenjugott veður var um sumarið: „Þá (7. mars) gekk veður til hafáttar með hláku og hægviðri og óvenjulega miklum lofthita á þeim árstíma, allt að 10° R* (12,5° C), nokkurri úrkomu, þó aldrei stórfengri, og má heita að það verðurfar hafi haldist síðan nema dagana frá 24.-29. maí var norðanhviða með næturfrostum og kulda, úrkomulaust, en að því afstöðunu kom sama veðurblíðan aptur, með sívaxandi lopthita, eptir sólarhækkun, svo að hitinn varð allt að 20° R (25° C) um daga, og mátti heita, það veðráttufar hjeldist til júlímánaðarloka.“ Eins og sjá má í lýsingu sýslumanns rigndi mikið í júlímánuði.

Samantekin lýsing sýslumanns á verðurfari frá ársbyrjun til loka ágústmánaðar er svofelld: „Verðuráttan á tímabilinu hefir því verið óvenjulega hlý og spakviðrasöm, fremur votsöm, en fram til ágústmánaðar árgæzkuveður, í ágústmánuði hefir veðrið verið óhagfellt, vegna þerrileysis, og með köflum, stórfelldra rigninga, grasvöxtur í betra lagi á valllendi en í rírara á mýrum.“

Athyglivert er á hve fallegu og lipru máli lýsing sýslumanns er. Þar er að finna orð sem ekki eru notuð lengur. Dæmi um þau eru orðin „deyfukenndur“ og „spakviðrasamur“ en þau finnast t.d. ekki í ritmálssafni Orðabókar Háskólans sem er á netinu.

Þær myndir af skýrslunni sem hér birtast eru hlutar af skýrslunni og þannig til skornir að falli vel að netbirtingu.

*Á tímabili var hiti mældur í Reaumurgráðum (kenndar við franska náttúrfræðinginn Réaumur). Á reaumurkvarða er frostmark vatns 0° R og suðumark 80° R (1 ° R = 1.25 °C).

Heimild:
Þjóðskjalasafn Íslands: Suðuramt J-C1-1880.

Norræni skjaladagurinn 13. nóvember 2010