Bréf til vitnis um sérstaka póstgeymslu í jökli.
Mynd 1. Bréf til vitnis um sérstaka póstgeymslu í jökli.
Mynd 2. Á Breiðamerkurjökli 1932
Mynd 1. Bjarni Guðmundsson frá Túni í Hraungerðishreppi, lengi þekktur sem sérleyfishafi og fjallabílstjóri, hóf á unga aldri fjölbreytt viðskipti svo sem með frímerki. Meðfylgjandi bréf er til vitnis þar um en einnig um sérstaka póstgeymslu í jökli. En jökullinn skilar sínu og að baki liggur örlagasaga flestum gleymd nú. Þriðjudaginn 7. september 1927 í hvössu rigningarveðri af austri lagði pósturinn á Breiðamerkurjökul ásamt fimm manns með sjö hesta. Þá var nær ekkert lón við jökulsporðinn sem mun hafa legið nærri jökulgarðinum mikla sem brúin er við núna. Ferðin upp bratta og hála jökulbrúnina sóttist seint enda þurfti að höggva spor í jökulinn fyrir hestana. Einn gætti þeirra á brattri jökulbrún meðan aðrir fóru á undan og hjuggu spor í ísinn. Þá brast hjökullinn undan manni og hestum. Þann dag og hinn næsta tókst að bjarga þremur hestum og þrír fundust dauðir. Maðurinn, Jón Pálsson, fannst ekki fyrr en næsta vor og þá fannst einnig pósthesturinn og pósttöskurnar með innihaldi sínu. Um þennan atburð má lesa í frásögn Björns Pálssonar á Kvískerjum í ritinu „Hrakningar og heiðarvegir, bindi III.“ útg. 1953.
Mynd 2. Á Breiðamerkurjökli 1932. Ekki var um aðra leið yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi að ræða en á jökli. Sumarið 1932 fór Ásgeir L. Jónsson vatnsvirkjafræðingur þar yfir til mælinga í Austur-Skaftafellssýslu. Myndina mun hann hafa tekið á austurleið 6. júlí eða á vesturleið 6. september.
Mynd 3. Á Skeiðarárjökli. Árið 1944 fór Ásgeir L. Jónsson landleiðina vestur frá Höfn í Hornafirði. Myndina tók hann 29. júlí á jökuljaðrinum rétt við útfall Skeiðarár. Bæjarstaðarskógur og Morsárjökull sjást í baksýn t.h.
Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafni Árnesinga