Barnastúkan Vorperla No. 64. Norðfirði


Það var merkis atburður þegar fyrsta stúka Góðtemplarareglunnar var stofnuð á Íslandi árið 1884. Það voru viðbrögð ágætra manna á Íslandi, gegn óhóflegum drykkjuskap. Þetta form bindindismanna átti eftir að hafa víðtæk áhrif, ekki aðeins til að hamla gegn áfengisbölinu, heldur var félagsskapur stúkunnar sá skóli sem kenndi landsmönnum öðru fremur, hverskonar fundarstjórn og vinnubrögð í ræðumennsku og framkomu í ýmsum málum og félagslífi. Góðtemplarareglan hafði geysi mikil uppeldisleg áhrif og formfesta hennar á fundum, markaði djúp spor hjá mörgum manninum, sem átti eftir að taka þátt í hinum ýmsu störfum samfélagsins.

Árið 1877 var stofnað bindindisfélag á Norðfirði, sem nefnt var Bindindisfélag Norðfirðinga, það var stofnað sunnudag einn eftir messu að Skorrastað, af séra Magnúsi Jónssyni sem þá var prestur þar, en varð síðar prestur að Laufási við Eyjafjörð. Stofnfélagar Bindindisfélags Norðfjarðar voru 12, í árslok 1884 voru félagsmenn ornir alls 94, það voru 51 karlmaður og 43 konur. Talið var að þetta bindindisfélag hafi haft mikil áhrif um stofnun slíkra samtaka um allt land.

Árið 1899 var stofnuð stúka á Norðfirði er nefnd var Nýja Öldin No. 65 og starfaði hún oftast vel í 40 - 50 ár. Í stúku þessari voru margir áhrifamenn í norðfirsku samfélagi. Á vegum hennar dafnaði leiklist og annað heilbrigt skemmtanalíf. Reisti stúkan gott samkomuhús árið 1928, sem var lengi aðal samkomuhús bæjarins.

Árið 1922 var Barnastúkan Vorperla No. 64 stofnuð. (Þær myndir og skjöl sem við birtum hér með eru frá þeirri stúku). Þann 11. júní 1927 er stúkan Vorperla No. 64 endurvakin og frá þeim tíma er það stofnskjal, er myndin er af sem birtist hér.

Stúkan Vorperla No. 64 var lengi mjög lifandi og áhrifaríkur félagsskapur, sem hafði mikið uppeldisleg áhrif. Er óhætt að fullyrða, að þeir sem þar urðu fyrir áhrifum og mótuðust af bindindishugsjóninni, aga og söng, hafi margir búið að því alla æfi. Gæslumennirnir voru einstakir æskulýðsleiðtogar en þeir voru Valdimar V. Snævarr, sem var skólastjóri barnaskólans á Norðfirði í 30 ár og Sigdór V. Brekkan, sem þar var kennari nokkru lengur. Vinna þessara ágætu bindindismanna var óþrjótandi utan skólans og þá einkum í fjölmennri barnastúkunni.

Stúkan tók þátt í mörgum framfaramálum á Norðfirði og má þar meðal annars nefna að um tíma var starfandi innan stúkunnar Taflfl- og Knattspyrnuflokkur. Snemma árs 1927 hóf stúkan útgáfu barnablaðs er nefnt var Smári, það kom út í um 5 ár og var ritstjóri þess Valdimar V. Snævarr. 

Stúkan Vorperla No. 64 starfaði fram undir lok sjötta áratugs síðustu aldar.

Heimildir: Ræða úr ræðusafn Jóhannesar Stefánssonar, fyrrum forseta bæjarstjórnar Neskaupstaðar.Ýmis gögn frá stúkunum Nýja Öldin No. 65 og Vorperla No. 64. Varðveitt hjá Skjala- og myndasafin Norðfjarðar.


Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafni Neskaupstaðar


 

Athugasemdir gesta


Skráðu athugasemd


Nafn:

Póstfang:
Athugasemdir:

Umsjón