Árið 1926 hófust útvarpssendingar á Íslandi og nefndist það Útvarp hf. Mikill áhugi var á þessari nýjung á Hvammstanga. Í janúar 1927 stofnuðu nokkrir menn þar Radíófélagið á Hvammstanga og var tilgangur þess að kaupa móttökutæki til að nema útvarpssendingar frá hinni nýju stöð. Hlutafé var 650 kr.og skiptist í 10 jafna hluta. Félagið mun hafa keypt móttökutæki og voru þau líklega sett upp í Þinghúsinu (sem var samkomuhús staðarins) Stöðin í Reykjavík hafði reyndar lítinn sendistyrk, eða 0,5 kw, en þó náðust sendingar víða á Norðurlandi.
Í gögnum málfundafélagsins Öku-Þórs má sjá að að mikill áhugi var fyrir þessu og vel fylgst með útsendingum sem voru á kvöldin, en þá kom fólk saman í Þinghúsinu og hlýddi á það sem í boði var. Útsendingar félagsins stóðu til 1928 og var þá hætt vegna fjárskorts.
Fyrstu árin eftir að Ríkisútvararpið var stofnað komu Hvammstangabúar gjarnan saman og hlustuðu á útvarpið, en svo fækkaði þeim eftir því sem útvarpstækjum í almenningseigu fjölgaði.
Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafni Vestur-Húnavatnssýslu